Svipmyndir úr leiknum, sem og sigri Washington Wizards á toppliði Utah Jazz, og sigri LA Lakers á Charlotte Hornets, má sjá hér að neðan. Þar eru einnig tíu bestu tilþrif gærkvöldsins:
Taugarnar voru þandar undir lok leiksins í New York. Reggie Bullock tapaði boltanum í stöðunni 94-93, þegar enn voru 22 sekúndur eftir. Hann svaraði fyrir sig með því að stela boltanum af Fournier.
„Ég verð að hrósa honum [Bullock] því hann náði snertingunni en þetta var í raun bara barnaskapur hjá mér,“ sagði Fournier og baðst afsökunar.
Knicks eru í harðri baráttu um að enda í hópi sex efstu liða í austurdeild NBA-deildarinnar. Eftir sigurinn í gær eru Knicks með 21 sigur og 21 tap í 7. sæti, en liðin í 7.-10. sæti þurfa að fara í umspil um tvö laus sæti í úrslitakeppninni. Orlando er í næstneðsta sæti.
Julius Randle var með þrefalda tvennu fyrir Knicks en hann skoraði 18 stig, átti 17 stoðsendingar og tók 10 fráköst.
Bradley Beal og Russell Westbrook voru áberandi í sigri Washington Wizards á toppliði Utah Jazz, 131-122. Beal skoraði 43 stig en Westbrook 35, tók 15 fráköst og gaf 13 stoðsendingar.
LeBron James var svo að vanda í aðalhlutverki hjá Lakers sem unnu Charlotte 116-105 eftir að hafa lent í smávandræðum með að halda forskoti gegn gestunum. James skoraði 37 stig og Dennis Schröder 22.