Körfubolti

Hetja Blika: „Hugsaði að ég tæki bara skotið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jessica Lorea skoraði tuttugu stig og gaf þrettán stoðsendingar gegn Val í kvöld.
Jessica Lorea skoraði tuttugu stig og gaf þrettán stoðsendingar gegn Val í kvöld. vísir/vilhelm

Það var að vonum létt yfir Jessicu Lorea, leikmanni Breiðabliks, eftir sigurinn á Val, 74-69, í kvöld. Hún skoraði sigurkörfu Blika þegar fjórtán sekúndur voru eftir af leiknum.

„Við ætluðum að vera einbeittar og framkvæma sóknina vel. Við þekkjum alla möguleikana sem við höfum út úr leikkerfunum og eigum að taka opin skot ef þau bjóðast,“ sagði Jessica við Vísi eftir leikinn.

„Liðið treystir þeim sem er með boltann í höndunum og ég hugsaði að ég tæki bara skotið. Liðið studdi við bakið á mér og þetta var rétt á þessu augnabliki.“

Jessica skoraði tuttugu stig og gaf þrettán stoðsendingar í leiknum í kvöld. Hún kvaðst ánægð með frammistöðuna gegn Íslandsmeisturunum.

„Við höfum lagt hart að okkur á æfingum síðustu vikuna til að undirbúa okkur við að spila gegn frábæru liði eins og Val,“ sagði Jessica. „Við ætluðum bara að berjast allt til loka og ég held við höfum gert það.“

Jessica sagði að liðsheild Blika hafi verið sterk í leiknum í kvöld.

„Við spiluðum eins og lið. Það er svo góður andi í liðinu, innan vallar sem utan. Við héldum alltaf áfram. Það er langt síðan við áttum svona stóran leik og okkur fannst við þurfa að vinna hann. Við börðumst allan leikinn eins og við ætluðum að gera,“ sagði Jessica að lokum.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×