Arnar Þór Viðarsson mun kynna sinn fyrsta A-landsliðshóp á miðvikudaginn. Hópurinn á fyrir höndum útileiki við Þýskaland, Armeníu og Liechtenstein dagana 25., 28. og 31. mars. Þetta eru fyrstu leikirnir í undankeppni HM en undankeppnin verður öll leikin á þessu ári.
Það veltur á vali Arnars hvaða leikmenn standa svo Davíð Snorra Jónassyni til boða þegar hann velur sinn fyrsta U21-landsliðshóp. Davíð mun kynna hópinn sinn sólarhring síðar en Arnar, eða næsta fimmtudag.
Davíð tók við U21-landsliðinu af Arnari í vetur og er á leið með það í lokakeppni EM, í Györ í Ungverjalandi. Þar mætir Ísland liðum Frakklands, Danmerkur og Rússlands, sömu daga og A-landsliðið leikur í undankeppni HM.
Ekki liggur fyrir hvaða leikmenn standa landsliðsþjálfurunum til boða en félagslið leikmanna mega neita mönnum um að fara í landsliðsverkefni hafi þau í för með sér að minnsta kosti fimm daga sóttkví fyrir leikmennina.