Í frétt BBC segir að Vilhjálmur hafi tjáð sig stuttlega við fjölmiðla að lokinni heimsókn í skóla í Stratford í austurhluta Lundúna í morgun. Sagðist hann enn ekki hafa rætt við Harry, bróður sinn, um það sem fram kom í viðtalinu en að það stæði til.
Í tilkynningu frá Buckingham-höll á þriðjudag kom fram að sú fullyrðing Meghan að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi lýst yfir áhyggjum af húðlit ófædds sonar þeirra Harry og Meghan, valdi „áhyggjum“ og að málið yrði tekið upp einslega í samtali við þau Harry og Meghan.
Í viðtalinu við Oprah sagði Meghan að Harry hafi verið spurður af ónefndum meðlimi konungsfjölskyldunnar um „hve dökkur“ húðlitur barnsins gæti orðið. Harry prins útskýrði síðar við Opruh að ummælin ættu hvorki við ömmu hans og afa, það er Elísabetu drottningu og Filippus.
Stutt samtal Vilhjálms prins við fjölmiðla í morgun var á þá leið að fréttamaður spurði hann: „Er konungsfjölskyldan rasísk fjölskylda, herra?“. Prinsinn svaraði þá: „Við erum alls ekki rasísk fjölskylda.“
Aðspurður svo um hvort hann hafi rætt við Harry, sagði Vilhjálmur: „Nei, ég hef ekki rætt við hann, en ég mun gera það.“