„Það er engin leið að ég segi af mér,“ sagði Cuomo við fréttamenn í gær. Hélt ríkisstjórinn því jafnvel fram að það væri „andlýðræðislegt“ að hann segði af sér embætti.
Nokkrar konur hafa nú stigið fram og lýst því að Cuomo hafi áreitt þær kynferðislega, niðurlægt þær eða látið þeim líða óþægilega í gegnum tíðina. Dómsmálaráðherra New York rannsakar nú ásakanirnar.
Ein þeirra, Charlotte Bennett, er 25 ára gömul fyrrverandi aðstoðarkona Cuomo sem sjálfur er 63 ára gamall. Í viðtali við New York Times greindi hún frá því að Cuomo hefði spurt sig ágengra persónulegra spurning um kynlíf sitt, þar á meðal hvort hún sængaði hjá eldri karlmönnum og hvort henni fyndist aldursmunur skipta máli í samböndum. Atvikið átt sér stað síðasta vor þegar faraldurinn var í algleymingi í New York.
Cuomo, sem er demókrati og er á þriðja kjörtímabili sem ríkisstjóri, átti fyrir í vök að verjast eftir uppljóstranir um að nánir ráðgjafar hans hafi látið breyta tölum um fjölda dauðsfalla á hjúkrunarheimilum í faraldrinum í opinberri skýrslu. Áður hafði Cuomo verið talinn framarlega í baráttunni við kórónuveiruna og talinn líklegur forsetaframbjóðandi.
Hneykslismálin hafa nú kostað Cuomo stuðning leiðtoga demókrata á ríkisþingi New York. Andrea Stewart-Cousins, leiðtogi þingmeirihluta demókrata í öldungadeild ríkisþingsins, hvatti Cuomo til að segja af sér í gær. Carl Heastie, forseti fulltrúadeildarinnar, gekk ekki svo langt en sagði að ríkisstjórinn þyrfti að íhuga vandlega hvort hann get mætt þörfum íbúa ríkisins.
AP-fréttastofan segir að Cuomo hafi sagt Stewart-Cousins í símtali á laugardag að hann ætlaði sér ekki að hætta. Vilji demókratar hann úr embætti verði þeir að kæra hann fyrir embættisbrot og fjarlægja hann þannig.