Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Valur 90-79 | Frábær seinni hálfleikur heimamanna

Sindri Sverrisson skrifar
Ægir Þór Steinarsson er Stjörnuliðinu afar dýrmætur á báðum endum vallarins.
Ægir Þór Steinarsson er Stjörnuliðinu afar dýrmætur á báðum endum vallarins. vísir/Hulda Margrét

Stjörnumenn eru aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Keflavíkur eftir að hafa snúið leiknum við Val sér í vil í seinni hálfleik í kvöld. Valsmenn voru ellefu stigum yfir í hálfleik en Stjarnan vann með ellefu stigum, 90-79.

Stjarnan er með 18 stig en Valur situr utan úrslitakeppni sem stendur, með aðeins átta stig eftir tólf umferðir af 22.

Stjarnan byrjaði betur en Sinisa Bilic, staðráðinn í að standa sig eftir munnræpuna gegn Grindavík í síðasta leik, stal senunni með tíu síðustu stigum Vals í fyrsta leikhluta. Val hafði gengið illa að komast að körfunni en Bilic breytti því og sá til þess að forskot Stjörnunnar var aðeins þrjú stig, 26-23, í lok leikhlutans.

Valsmenn héldu hraðanum vel niðri í öðrum leikhluta og héldu Stjörnunni í aðeins átta stigum. Stjörnumenn létu mótlætið fara í taugarnar á sér, fengu á sig óíþróttamannslega villu og tæknivillu á bekkinn fyrir kjaftbrúk, á meðan að gestirnir skoruðu nokkuð jafnt og þétt.

AJ Brodeur var öflugur í kvöld en klikkaði illa á skoti í blálok fyrri hálfleiks, nógu snemma til að Jordan Roland næði flautuþristi fyrir Valsmenn sem komust í 45-34.

Valsmenn náðu mest tólf stiga forskoti en um miðjan þriðja leikhluta trekkti Mirza Sarajlija sóknarleik Stjörnunnar í gang með tveimur snöggum þristum upp úr þurru. Það var nákvæmlega það sem Stjarnan þurfti. Gestirnir hættu að geta skorað en Ægir, Mirza og Brodeur sáu til þess að Stjarnan komst yfir fyrir lokafjórðunginn, 61-59.

Valsarar voru aldrei sérlega líklegir til að svara fyrir sig í lokafjórðungnum, Stjarnan undirstrikaði af hverju liðið er mun ofar en Valur og leikurinn fjaraði smám saman út.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn náðu að keyra upp hraðann í þriðja leikhluta og skotin fóru að detta. Kannski blekkti hálfleiksstaðan aðeins því úrslitin eru nákvæmlega eftir bókinni eins og liðin hafa spilað í vetur. Til að Valur vinni Stjörnunni þurfa fleiri, ef ekki allir, að eiga góðan dag í rauðu treyjunni en lykilmenn brugðust í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Ægir Þór Steinarsson átti sviðið í kvöld eins og svo oft áður. Hann meiðir andstæðingana hreinlega með hraða sínum og útsjónarsemi, og frábærum varnarleik. Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar lýsti Ægi sem besta leikmanni deildarinnar eftir leik og undir það má taka. Hann endaði með 21 stig, hitti úr 6 af 8 þristum, og heilar 15 stoðsendingar. Mirza átti afar mikilvægt innlegg þegar þess þurfti og skoraði 14 stig, en Stjörnuliðið allt var mjög gott í seinni hálfleik.

Miguel Cardoso tók ekki alltaf bestu ákvarðanirnar í kvöld en endaði með 25 stig og var bestur í liði Vals. Bilic átti frábæra rispu í fyrri hálfleik en sást svo lítið.

Hvað gekk illa?

Valur fékk Pavel og Jón Arnór til að búa til lið í fremstu röð en þeir áttu afar slæmt kvöld. Pavel setti aðeins niður eitt af átta skotum sínum og Jón, sem kom inn af bekknum, setti niður tvö af tíu skotum sínum.

Hvað gerist næst?

Stjörnumenn þurfa að safna kröftum fljótt því þeir eru á leið austur til að mæta Hetti á sunnudagskvöld. Valsmenn taka á móti ÍR-ingum á mánudagskvöld í afar þýðingarmiklum leik.

Ægir: Hrikalega lélegt í fyrri en við sýndum töffaraskap

„Það gekk bara vel í kvöld,“ sagði Ægir Þór Steinarsson, hógværðin uppmáluð þegar blaðamaður bar undir hann ummæli Arnars þjálfara um að hann væri besti leikmaður deildarinnar.

„Seinni hálfleikur var sérstaklega góður, orkulega séð. Mér fannst þetta hrikalega lélegt í fyrri hálfleik, og leiðinlegt að horfa á, en ég held að Mirza og fleiri hafi gefið okkur kraft í þriðja leikhluta til að ná þessum mun niður. Við sýndum töffaraskap í seinni hálfleik, með stórum skotum og meiri festu bæði í sókn og vörn,“ sagði Ægir.

„Mér fannst þetta frekar slakur körfubolti af okkar hálfu sérstaklega. Við vorum að gera hluti sem við erum ekkert sérstaklega góðir í. Þó að við séum að spila á hálfum velli þá þurfum við að sýna meira tempó í okkar aðgerðum, betri skrín og allt þetta. Á sama tíma þurfum við að stoppa þá eftir að þeir skora 45 stig í fyrri hálfleik. Er það ekki bara of mikið?“ spurði Ægir.

Ægir þurfti meðal annars að glíma við félaga sinn úr landsliðinu, Hjálmar Stefánsson, sem var fljótt kominn í villuvandræði. Hvernig var að eiga við Valsmenn?

„Þeir eru hrikalega sterkir, langir og stórir. Það þarf að skjóta yfir þá og skora „lay-up“ yfir þá, og ég held að við höfum fundið ágætar leiðir í því þegar leið á leikinn.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira