Erlent

Öllum full­orðnum verði boðin bólu­setning fyrir 31. júlí

Sylvía Hall skrifar
Boris vill flýta bólusetningum. 
Boris vill flýta bólusetningum.  Getty/Paul Ellis

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur lofað því að öllum fullorðnum einstaklingum í Bretlandi standi til boða að láta bólusetja sig fyrir 31. júlí næstkomandi. Hann vill hraða bólusetningum svo hægt sé að grípa til frekari tilslakana.

Þetta er breyting frá fyrri áætlunum sem gerðu ráð fyrir því að klára bólusetningar fullorðinna fyrir september, að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins. Yfir sautján milljónir Breta hafa þegar verið bólusettir, en bólusetningar hófust þar í landi í byrjun desember á síðasta ári.

Áhersla er lögð á að vernda viðkvæmustu hópana eins fljótt og auðið er til að sporna gegn frekari dauðsföllum af völdum veirunnar. Um 120 þúsund hafa látist þar í landi frá því að faraldurinn hófst og hefur heilbrigðiskerfið verið undir gífurlega miklu álagi.

Ný bólusetningaáætlun gerir ráð fyrir því að allir yfir fimmtíu ára aldri sem og yngra fólk með undirliggjandi sjúkdóma, sem kýs að láta bólusetja sig, verði bólusett fyrir 15. apríl næstkomandi.

Johnson mun funda á morgun um frekari tilslakanir á samkomutakmörkunum, en stefnt er að því að kynna heildstæða áætlun á mánudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×