Með dómnum lýkur máli sem hefur velkst um í franska dómskerfinu í um tíu ár.
Hinn 63 ára Tron, sem er borgarstjóri í Draveil suður af París, var árið 2011 sakaður um kynferðisbrot gegn tveimur konum sem störfuðu í ráðhúsinu. Brotin áttu sér stað annars vegar árið 2007 og hins vegar 2010.
Ásakanirnar leiddu til að hann sagði af sér sem ráðherra í ríkisstjórn þáverandi forsætisráðherra François Fillon árið 2011. Var þetta í forsetatíð Nicolas Sarkozy.
Að lokinni rannsókn var Tron ákærður, en hann hlaut svo sýknudóm árið 2018. Dómnum var áfrýjað en nú í vikunni var Tron sakfelldur fyrir að hafa nauðgað annarri konunni.
Tron hefur gegnt embætti borgarstjóra Draveil frá árinu 1995.