Erlent

Jensen stígur til hliðar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Siv Jensen, leiðtogi Framfaraflokksins.
Siv Jensen, leiðtogi Framfaraflokksins. EPA/Fredrik Varfjell

Siv Jensen ætlar að hætta sem formaður norska Framfaraflokksins. Þetta sagði hún á blaðamannafundi í þinghúsinu rétt í þessu.

Jensen sagðist hafa tjáð stjórn flokksins að hún ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri í þingkosningunum í september. „Þetta þýðir auðvitað að flokkurinn þarf að kjósa sér nýjan leiðtoga á landsfundi í maí.“

Að sögn Jensen var þetta erfið ákvörðun. „En ég er alfarið viss um að þetta er rétta skrefið fyrir bæði flokkinn og sjálfa mig.“

Þá lagði hún til að Sylvi Listhaug, fyrrverandi orkumálaráðherra, taki við keflinu.

Skoðanakönnun Sentio frá því í síðustu viku sýndi 7,5 prósenta stuðning við Framfaraflokkinn, sem fékk 15,2 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Hægriflokkur Ernu Solberg mælist enn stærstur með 26,9 prósenta stuðning, litlu meira en í kosningunum 2017.

Hætti í stjórn í fyrra

Jensen hefur setið á þingi frá árinu 1997 og leitt flokkinn frá því 2006. Hún var fjármálaráðherra Noregs frá 2013 þangað til í fyrra þegar flokkurinn sagði sig úr ríkisstjórnarsamstarfi.

Mikil óánægja var þá innan Framfaraflokksins eftir að norsk stjórnvöld ákváðu að sækja konu, norskan ríkisborgara sem hafði verið virk innan hryðjuverkasamtakanna ISIS, til Sýrlands ásamt tveimur börnum hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×