Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um aðgerðaáætlun til eflingar íslensks landbúnaðar, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti í morgun.
Fyrrnefndu átaki er ætlað að stuðla að frekari fullvinnslu og vöruþróun, og varðveislu verkþekkingar og menningararfs við vinnslu matvæla.
„Tilgangurinn er að auðvelda landbúnaðinum að nýta betur tækifærin sem í því geta falist. Fjármagn til að hrinda átakinu í framkvæmd er tryggt. Samhliða verður starfsumhverfi smáframleiðenda matvæla tekið til skoðunar með það að markmiði að draga fram möguleika til einföldunar regluverks sem gildir um starfsemina,“ segir í tilkynningunni.
Landbúnaðarstefna og mælaborð kynnt á vormánuðum
Aðgerðirnar sem ráðherra kynnti í morgun eru tólf og eiga tíu að vera komnar til framkvæmda 15. apríl næstkomandi. Umsjón með verkefninu hefur Sigurður Eyþórsson.
„Tilgangur aðgerðanna er að skapa öfluga viðspyrnu fyrir íslenskan landbúnað og auðvelda honum að nýta tækifæri framtíðarinnar,“ segir í tilkynningunni frá ráðuneytinu.
Dæmi um aðrar aðgerðir eru 970 milljóna króna framlag til að draga úr skaðlegum áhrifum Covid-19 á bændur. Þá mun tillaga að landbúnaðarstefnu fyrir Ísland liggja fyrir á vormánuðum og fyrsta útgáfa nýs mælaborðs fyrir landbúnaðinn birtast í mars næstkomandi.
Nánari upplýsingar um aðgerðaáætlunina má finna hér.