Erlent

Mikill við­búnaður víða um Banda­ríkin vegna kulda og snjó­komu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Um 150 milljónir manna búa nú við vetrarfærð að sögn Bandarísku veðurstofunnar sem er óvenju há tala.
Um 150 milljónir manna búa nú við vetrarfærð að sögn Bandarísku veðurstofunnar sem er óvenju há tala. Getty/Montinique Monroe

Mikill viðbúnaður er nú í flestum ríkjum Bandaríkjanna vegna kulda og snjókomu sem gengið hefur yfir stóran hluta landsins og ekki síst í ríkjum sem alla jafna sjá ekki mikinn snjó.

Um 150 milljónir manna búa nú við vetrarfærð að sögn Bandarísku veðurstofunnar sem er óvenju há tala. Búast má við allt að þrjátíu sentimetrum af jafnföllnum snjó í ríkjum á borð við Texas, Oklahoma og Kansas.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur meðal annars fallist á að lýsa yfir neyðarástandi í Texas en þar eru nú frosthörkur og snjór víða. Það leiðir til þess að íbúar ríkisins nota mun meira rafmagn en venjulega sem leitt hefur til álags á kerfið þannig að það lætur undan.

Mikil hálka er á vegum og í Texas urðu um 120 umferðarslys sem rakin eru til hálku, aðeins á sunnudag. Þá lenti fjöldi bíla í einum og sama árekstrinum í Oklahoma þar sem meðal annars nokkrir flutningabílar brunnu.

Yfirvöld sums staðar í Louisiana hafa síðan gripið til þess ráðs að setja á útgöngubann til þess að koma í veg fyrir að fólk sé á ferðinni á ísilögðum vegum ríkisins. Veðrið náði jafnvel niður til Mexíkó þar sem um fjórar milljónir heimila voru án rafmagns í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×