Innlent

Rigning, slydda eða snjókoma í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er spáð rigningu á höfuðborgarsvæðinu á morgun.
Það er spáð rigningu á höfuðborgarsvæðinu á morgun. Vísir/Vilhelm

Það verður fremur hæg suðaustlæg átt í dag og dálitlar skúrir fyrri part dags en þurrt og bjart veður á Norðurlandi. Hiti verður eitt til sex stig.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Eftir hádegi í dag gengur svo úrkomubakki inn á austanvert landið og má þá búast við norðaustan kalda og rigningu með köflum en vestantil á landinu verður þurrt að mestu fram á nótt.

Á morgun er svo áfram spáð hægum vindi en þá er komin úrkoma í kortin í flestum landshlutum. Úrkoman verður ýmist í formi rigningar, slyddu eða snjókomu en styttir upp síðdegis norðaustanlands. Þá kólnar heldur, hiti verður um eða yfir frostmarki.

Veðurhorfur á landinu:

Fremur hæg suðaustlæg átt og dálitlar skúrir fyrri part dags, en bjartviðri N-lands. Hiti 0 til 6 stig. Norðaustan 5-13 m/s og rigning með köflum seinnipartinn, en hægari vindur og þurrt V-til á landinu fram á kvöld.

Breytileg átt 3-10 á morgun og rigning eða snjókoma með köflum, en styttir upp NA-lands síðdegis. Hiti um eða yfir frostmarki.

Á miðvikudag:

Fremur hæg breytileg átt og rigning eða slydda með köflum, hiti 0 til 5 stig. Kólnar seinnipartinn með dálítilli snjókomu eða slyddu á V-landi, en styttir upp N- og A-lands.

Á fimmtudag:

Hæg breytileg átt og víða dálítil él, en skúrir með A-ströndinni. Þurrt að kalla um kvöldið. Hiti í kringum frostmark.

Á föstudag:

Norðaustan 5-13 og úrkomulítið, en bætir í vind síðdegis með dálitlum skúrum eða éljum við N- og A-ströndina. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:

Norðaustlæg eða breytileg átt og rigning eða slydda um tíma í flestum landshlutum. Hiti 0 til 5 stig.

Á sunnudag:

Suðlæg átt og rigning eða slydda með köflum, en bjartviðri um landið NA-vert. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×