Handbolti

Alexander frá næstu vikurnar vegna meiðsla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander Petersson í leik Íslands og Portúgals á HM í Egyptalandi.
Alexander Petersson í leik Íslands og Portúgals á HM í Egyptalandi. epa/Khaled Elfiqi

Alexander Petersson meiddist á æfingu með Flensburg og verður frá keppni næstu vikurnar.

Alexander gekk í raðir Flensburg frá Rhein-Neckar Löwen eftir heimsmeistaramótið í Egyptalandi. Hann lék áður með Flensburg á árunum 2007-10. Alexander var ætlað að fylla skarð Franz Semper hjá Flensburg en hann sleit krossband í hné.

Alexander tognaði á læri á æfingu með Flensburg fyrir leikinn gegn Hannover-Burgdorf. Hann verður væntanlega frá keppni í nokkrar vikur.

„Þetta er annað áfall fyrir okkur,“ sagði Maik Machulla, þjálfari Flensburg. „Alex hafði fallið vel inn í hópinn og hefði getað hjálpað okkur mikið. Fjarvera hans er svekkjandi fyrir hann og okkur sem lið. Ég vonast til að hann jafni sig sem fyrst.“

Þrátt fyrir að hafa glímt við mikil meiðsli á tímabilinu er Flensburg á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar. Þá er liðið í góðri stöðu í Meistaradeild Evrópu.

Alexander, sem er fertugur, hefur leikið í Þýskalandi síðan 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×