Cloé Eyja Lacasse hefur verið íslenskur ríkisborgari í að verða tvö ár en hefur ekki fengið að spila með íslenska A-landsliðinu. Ástæðan er stífni FIFA sem segir nei.
Vandamálið tengist dvalartíma Cloé Eyju á Íslandi og litlar líkur eru taldar á því að hún fá einhvern tímann leyfi til að spila með íslenska landsliðinu.
Cloé Eyja Lacasse er kanadísk en fékk íslenskan ríkisborgararétt um mitt ár 2019. Hún spilað í fjögur tímabil með ÍBV í Pepsi Max deildinni en samdi við portúgalska félagið Benfica síðla sumars 2019.
Fréttablaðið fjallar um mál Lacasse og fékk þar staðfestingu á stöðu mála frá Hauki Hinrikssyni sem er yfirlögfræðingur KSÍ og sér um leyfismálin.
Samkvæmt reglum Alþjóða knattspyrnusambandsins þá þurfa einstaklingar að búa í fimm ár samfleytt í ríkinu til þess að fá heimild til að fá að leika fyrir landsliðið en Cloé náði því ekki fyrir félagsskipti sín til Benfica í Portúgal.
KSÍ sendi fyrirspurn inn til FIFA hvort að félagsskipti hennar milli landa yrðu til þess að samfleytt dvöl teldist rofin og staðfesti FIFA að svo væri. Samkvæmt því þyrfi Cloé því að dvelja í fimm ár á Íslandi á ný til að öðlast keppnisrétt fyrir hönd íslenska landsliðsins.
Cloé Eyja Lacasse varð bikarmeistari með ÍBV og skoraði alls 54 mörk í 79 deildarleikjum með Eyjaliðinu frá 2015 til 2019. Hún hefur raðað inn mörkum með Benfica liðinu eða 34 mörk í 26 deildarleikjum á einu og hálfu tímabili.