Körfubolti

Ólafur: Ég hitti ekki belju þó ég héldi í halann á henni

Atli Arason skrifar
Ólafur lengst til vinstri í mynd.
Ólafur lengst til vinstri í mynd. vísir/elín björg

Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur hefur oft átt betri leiki en hann átti í kvöld gegn KR Óli var 0 af 6 í þriggja stiga tilraunum og skoraði bara fjögur stig í fyrstu þremur leikhlutunum en endaði þó leikinn með 11 stig.

„Ég var bara soft. Ég var ekki að gera það sem ég er bestur í að gera og fór svo að gera það allt of seint í leiknum, það skilar einhverjum stigum á töfluna. Við vorum mikið að leita inn í teig á stóru strákana en það var uppleggið í dag að fara inn í teig og hægja á leiknum því þeir vilja mikið hlaupa upp og niður og við ætluðum ekki að fara í þann pakka, við vorum að gera fínt sóknarlega en varnarleikurinn var ekki nógu góður í dag,“ sagið svekktur Óli Óla í viðtali eftir leikinn í kvöld.

„Þetta var bara aumingjaskapur hjá okkur mest allan leikinn, við komum með ágætis áhlaup inn á milli en við vorum bara allt of linir varnarlega. Við vorum bara lélegir.“

Óla fannst eins og heimamönnum hafi gengið vel að opna vörn KR-inga en nýtingin á skot færunum hafi ekki verið nógu góð.

„Mér fannst við ekki beint fá einhver léleg skot. Við vorum bara ekki að hitta og sérstaklega ég. Ég hitti ekki belju þó ég héldi í halann á henni. En varnarleikurinn var mjög lélegur, kannski allt í lagi á köflum en heilt yfir ekki nógu góður,“ bætti Ólafur við sem er þó staðráðinn að svara fyrir lélegan leik á Króknum eftir þrjá daga.

„Nú kemur bara ísbað og heiti potturinn. Það er alltaf gaman að fara norður á Sauðárkrók. Við svekkjum okkur á þessu tapi í kvöld og mætum svo sterkir norður á Krókinn á fimmtudag,“ sagði Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur, að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×