Greene, sem er ný á þingi, hefur vakið mikla athygli að undanförnu en hún hefur síðustu misserin tekið undir margvíslegar samsæriskenningar á borð við Qanon.
Þá urðu alræmd ummæli hennar um að árásirnar á tvíburaturnana í New York árið 2001 hafi verið sviðsettar og sama hefur hún sagt um fjöldamorð í skólum. Hún þykir afar hægrisinnuð í skoðunum og er á meðal heitustu stuðningsmanna Donalds Trump.
Demókratar á þinginu vildu fjarlægja hana úr nefndunum og þar sem þeir eru í meirihluta í fulltrúadeildinni tókst þeim það.
Greene er þó einnig umdeild innan eigin flokks og ellefu Repúblikanar kusu með tillögunni í gær. Fyrr í gær gaf Greene út yfirlýsingu þar sem hún sagðist sjá eftir öllum þessum óábyrgu ummælum, en hún gekk þó ekki svo langt að biðjast afsökunar á þeim.
Það er afar sjaldgæft að meðlimir úr öðrum flokki hlutist svona til um stöðu andstæðinga sinna en í vikunni höfðu Repúblikanar sjálfir ákveðið að aðhafast ekki í málum Greene.