Max Montana er 25 ára gamall Bandaríkjamaður með þýskt vegabréf. Hann er mættur til landsins og ætti að losna úr sóttkví áður en topplið Keflavíkur fer í Vesturbæinn á morgun.
Montana hét áður Max Hoetzel en faðir hans er Þjóðverji og móðir hans Dani. Hann viðurkenndi í viðtali við San Diego Union-Tribune að til að bera Hoetzel-nafnið fram þyrftu menn að tala reiprennandi þýsku. Hann ætti sjálfur í vandræðum með að bera það rétt fram.
Föður þessa hávaxna körfuboltamanns leiddist alltaf að fólk kynni ekki að skrifa nafnið eða bera það fram. Á endanum skiptu Max og systur hans yfir í Montana, sem áður var millinafn sem foreldrar þeirra völdu vegna þess hve hrifin þau urðu af fylkinu.
Max og systur hans eru nokkuð vinsæl á samfélagsmiðlum. Max er til að mynda með tæplega 40 þúsund fylgjendur á Instagram og um 20 þúsund á Youtube og TikTok.
Yngri systir hans, Luna, er þó mun vinsælli með tæplega 600 þúsund áskrifendur á Youtube-rás sinni og 244 þúsund fylgjendur á Instagram. Eldri systirin, söngkonan Zolita, er með hátt í 200 þúsund hlustendur í mánuði á Spotify.
Max hefur spilað í tveimur efstu deildum Þýskalands eftir að hann hætti námi í Bandaríkjunum og gerðist atvinnumaður 2018. Síðast lék hann þó í Bandaríkjunum, í G-deildinni svokölluðu sem er eins konar þróunardeild fyrir NBA-deildina þar sem hvert lið tengist liði úr NBA-deildinni. Max lék fyrir Greensboro Swarm, sem tengist Charlotte Hornets, og skoraði 3,7 stig að meðaltali í leik.
Keflvíkingar binda miklar vonir við að að Max Montana styrki liðið í baráttunni sem framundan er í Dominos-deildinni en þeir eru á toppi deildarinnar með 12 stig eftir sjö umferðir. KR, sem er handhafi sex síðustu Íslandsmeistaratitla, er með átta stig.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.