Innlent

Enginn greindist innanlands í gær

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bólusetningar gegn Covid-19 hjá heilsugæslunni héldu áfram í gær.
Bólusetningar gegn Covid-19 hjá heilsugæslunni héldu áfram í gær. Vísir/Vilhelm

Enginn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær.

Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á covid.is. Einn greindist með virkt smit á landamærunum og þá er beðið niðurstöðu mótefnamælingar hjá fimm manns.

Alls voru tekin 713 einkennasýni í gær og 201 sýni við landamæraskimun í gær. Tuttugu manns eru í sóttkví og 38 í einangrun með Covid-19.

1.062 eru í skimunarsóttkví og fjórtán eru á sjúkrahúsi. Nýgengi innanlandssmita er nú 4,9 og nýgengi landamærasmita 5,5.

Fáir hafa greinst innanlands síðustu tvær vikur eða alls nítján manns frá 20. janúar. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, boðaði á upplýsingafundi í vikunni að hann myndi skila tillögum að tilslökunum til heilbrigðisráðherra síðar í þessari viku.

Núverandi samkomutakmarkanir gilda til 17. febrúar en hugmyndin er þá að fara fyrr í afléttingar vegna þess hve mjög smitum hefur farið fækkandi. Þórólfur segir í svari við fyrirspurn Vísis að hann sé ekki búinn að skila minnisblaði með tillögum til ráðherra.

Aðspurður hvenær hann hyggist skila inn tillögum og hvort það gæti til dæmis verið í dag segir hann það ekki ljóst á þessari stundu.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×