Erlent

Hátt í hundrað sett í sótt­kví og sektuð fyrir skíða­ferð

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
St. Anton am Arlberg hefur verið vinsæll áfangastaður skíðafólks í gegn um árin.
St. Anton am Arlberg hefur verið vinsæll áfangastaður skíðafólks í gegn um árin. EyesWideOpen/Getty

Lögreglan í Austurríki hefur skyldað 96 erlenda einstaklinga í sóttkví. Fólkið hafði ferðast til Austurríkis til þess að komast á skíði, en skíðabrekkur í landinu eru lokaðar öðrum en þeim sem búa þar, vegna kórónuveirufaraldursins.

Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið og segir að fólkið hafi nýtt sér glufur í reglum til þess að geta dvalið í St. Anton am Arlberg og skíðað. Hluti fólksins hafði ferðast undir því yfirskini að það væri á leið til vinnu á svæðinu en aðrir skráðu sig til heimilis á svæðinu.

Hver skíðamaður gæti átt yfir höfði sér 2.180 evra sekt, sem nemur um 340 þúsund krónum. BBC hefur eftir lögreglu á svæðinu að í hópi hinna brotlegu séu Danir, Svíar, Þjóðverjar, Írar, Rúmenar, Pólverjar, Ástralar og Bretar. Skíðafólkið sætir nú sóttkví og þarf að undirgangast kórónuveirupróf til þess að losna.

Günther Platter, ráðherra Tíról, og Karl Nehammer, innanríkisráðherra Austurríkis, hafa sagt að öllum brotum á reglum sem settar eru til að draga úr útbreiðslu Covid-19 verði mætt af hörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×