Körfubolti

Grindvíkingar bíða enn niðurstaðna úr myndatöku Dags Kárs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Grindavík má illa við þvi að missa Dag Kár Jónsson.
Grindavík má illa við þvi að missa Dag Kár Jónsson. vísir/elín björg

Grindvíkingar bíða eftir niðurstöðum úr myndatöku til að fá úr því skorið hvers eðlis meiðsli Dags Kárs Jónssonar eru.

Dagur meiddist á hné í leik Grindavíkur og Njarðvíkur á fimmtudaginn. Garðbæingurinn fór mikinn áður en hann meiddist og sett niður fjögur þriggja stiga skot í fjórum tilraunum. Grindavík tapaði leiknum, 81-78.

Dagur meiddist illa á hné á síðasta tímabili og hjarta Grindvíkinga tók eflaust aukakipp þegar hann þurfti að fara af velli á föstudaginn.

„Það er ekkert nýtt að frétta. Við eigum eftir að fá úr myndatöku og þá tökum við stöðuna,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, við Vísi í dag.

Dagur verður allavega fjarri góðu gamni þegar Grindavík fær hans gamla lið, Stjörnuna, í heimsókn í lokaleik 7. umferðar Domino's deildarinnar í kvöld.

Bandaríkjamaðurinn Eric Wise hafði sig lítið í frammi í leiknum gegn Njarðvík í Domino's Körfuboltakvöldi var því velt upp hvort hann væri meiddur. Aðspurður sagði Daníel að Wise yrði með í kvöld.

„Hann tók þátt í síðasta leik og tekur aftur þátt í kvöld,“ sagði þjálfarinn.

Leikur Grindavíkur og Stjörnunnar hefst klukkan 20:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Að honum loknum verður 7. umferð Domino's deildar karla gerð upp í Domino's Körfuboltakvöldi.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×