Ofanflóð á Flateyri og Seyðisfirði í fyrra hafa minnt Íslendinga rækilega á að baráttunni við að verja byggðir landsins er hvergi nærri lokið. Þrátt fyrir aukið eftirlit og uppbyggingu varnarvirkja mátti litlu muna að manntjón yrði. Íbúar sem Kómpás ræddi við á Flateyri og Seyðisfirði eiga það sameiginlegt að hafa ekki verið gert að rýma hús sín áður en hamfararnir riðu yfir. Sigfinnur Mikaelsson var heima með sonum sínum, og nýbúinn að kveðja fólk sem hafði hjálpað honum að steypa í kjallaranum á heimili þeirra, þegar aurskriða stefndi að húsi þeirra á Seyðisfirði: „Og sá flóðbylgju koma niður sem stefndi beint á okkur. Ég fékk sömu tilfinningu, að við myndum aldrei lifa þetta af.“ Oddný Björk Daníelsdóttir býr skammt utan við það svæði sem stóra skriðan féll á Seyðisfirði. Stór sprunga opnaðist í hlíðinni fyrir ofan heimili hennar: „Ég er allavega í þeim sporum að ég treysti ekki rýmingu lengur eftir þetta.“ Í Kompás fjöllum við um aðstæður þeirra sem þurfa að lifa við ofanflóðahættu og hvað sé hægt að gera í því. Við ræðum við íbúa á svæðum sem segja frá sinni upplifun og hvernig rannsóknum framvindur. Þögn sló á þjóðina Eftir mannskæð snjóflóð á Vestfjörðum árið 1995 var ákveðið að auka þungan í uppbyggingu varnarvirkja hér á landi. Verkið er um það bil hálfnað en því átti fyrst að ljúka árið 2010, svo 2020 og nú 2050. Eftir ofanflóðin á Flateyri og Seyðisfirði í fyrra eru flestir sammála um að hraða beri þeirri þróun. Þögn sló á þjóðina þegar fréttist að tvö snjóflóð hefðu farið yfir leiðigarðana á Flateyri að kvöldi 14. janúar í fyrra. Fyrra flóðið grandaði bátum í höfninni en seinna flóðið fór yfir hús í Ólafstúni. Vaskir björgunarsveitarmenn björguðu unglingsstúlku úr húsinu. Eftir atburðinn fluttu stúlkan og fjölskylda hennar frá Flateyri en þar býr fólk sem bíður eftir að öryggi þeirra verði tryggt. Þar á meðal er Steinunn Guðný Einarsdóttir borinn og barnfæddur Flateyringur sem býr á móti húsinu í Ólafstúni sem snjóflóðið fór yfir. Áfall að uppgötva að vörnin sé ekki 100 prósent „Auðvitað er þetta sjokk að maður sé varinn en ekki 100 prósent. Ég var svo rosalega örugg og það var eitthvað sem reif plásturinn af, að uppgötva að maður væri ekki 100 prósent hérna,“ segir Steinunn. Fyrra flóðið sökkti línubátnum Blossa sem var í eigu foreldra hennar og bróður. Seinna flóðið skall á skömmu síðar. Steinunn Guðný Einarsdóttir býr beint á móti húsinu í Ólafstúni sem flóðið fór yfir í fyrra.Vísir/Arnar „Ég sé Önnu nágranna minn hjálpa börnum sínum út um gluggann. Svo koma þau hérna yfir og þá fæ ég svaka endurlit til 1995. Hún segir að dóttir sín sé föst inni í herbergi. Mér var hugsað til frænku minnar sem var í svipuðu aðstæðum 95. Þá varð þetta rosalega raunverulegt og erfitt. Eftir snjóflóðið á Flateyri 1995 var ákveðið að reisa leiðigarða fyrir ofan byggðina til að bægja flóðum úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili frá. Íbúar á Flateyri höfðu áhyggjur af því að garðurinn myndi leiða flóð í höfnina. „Eins og mamma benti á á fundi þegar þetta var kynnt að leiðigarðurinn úr Skollahvilftinni væri að leiða beint út í höfnina. Þá stóðu sérfræðingarnir upp og sögðu að litla lónið myndi taka flóðið, sem varð aldeilis ekki raunin.“ Bentu á að flóð færi í höfnina Móðir Steinunnar er Guðrún Pálsdóttir en hún Guðmundur Björgvinsson, sem bæði hafa búið á svæðinu alla ævi, bentu á þetta á kynningarfundi áður en garðarnir voru reistir. Guðmundur hefur fylgst með hlíðinni fyrir ofan Flateyri allt sitt líf. Að fenginni reynslu gerði hann sér grein fyrir að garðurinn myndi leiða flóð í höfnina. Guðmundur Björgvinsson hefur búið á Flateyri alla ævi og þekkirnar hlíðarnar þar betur en margir. Vísir/Arnar „Og maður gerði sér alveg grein fyrir því að stór flóð myndu valda miklu usla. Svo þegar farvegurinn er þrengdur svona þá eykst álagið gagnvart höfninni. Við erum þarna á þessum fundi að benda á þetta, ég og Guðrún Pálsdóttir. Hún var þá með útgerð hérna og átti bát í höfninni og hafði auðvitað áhyggjur af sinni atvinnu og öryggi hafnarinnar. Þessu var nú tekið fremur léttúðlega og hálfpartinn hlegið að þessum athugasemdum segir Guðmundur. Guðmundur fékk síðar meir staðfestingu á því að ábendingar hans varðandi hönnun leiðigarðanna hefðu verið réttar. Markmiðið hefði þó verið að verja byggðina, ekki höfnina, og það hefði að stórum hluta tekist. Guðmundur þekkir hlíðarnar fyrir ofan Flateyri svo vel að honum tókst að teikna farvegi flóðanna í fyrra á loftmynd með nokkurri nákvæmni út frá frásögnum af því. Hann telur að leita þurfi meira til heimamanna við hönnun varnarvirkja. „Það eru margir sem hafa þekkingu og hafa reynslu og þekkja náttúrna betur á sínu svæði. Auðvitað á að ræða við fólk um slíka hluti. Þetta er ekki allt gert á teikniborði án þess að skoða stóru myndina.“ Ólíkur aðdragandi Flóðin á Flateyri á síðasta ári sættu miklum tíðindum því þau fóru niður hlíðarnar á fáheyrðum hraða og ofan á þeim var einskonar skopplag sem fór yfir leiðigarðana. Þegar flóðið féll á Flateyri árið 1995 var aftakaveður á svæðinu. Grípa átti til rýmingar ef slíkt óveður gerði aftur. Dagana fyrir flóðin í fyrra var veðrið skaplegt, en snjósöfnun mikil. Aðdragandi flóðanna var því um margt ólíkur sem hefur breytt hættumatinu á Flateyri á þann veg að gripið verður oftar til rýmingar í framtíðinni, því hættan er til staðar við fjölbreyttari aðstæður en áður var talið. Leiðigarðarnir á Flateyri. Á vinstri hönd sést leiðigarðurinn sem á að bægja flóði úr Skollahvilft frá bænum. Á hægri hönd má sjá garðinn sem á að leiða flóð úr Innra-Bæjargili frá bænum.Vísir/Arnar Hættusvæði vegna ofanflóða eru þrjú, A – B og C, þar sem C er hættulegast. Búi einhver á svæði C skal tryggja öryggi með því að kaupa upp húsnæði eða verja það með varnarvirki. Hins vegar er hægt að tryggja öryggi þeirra sem búa á A eða B svæði með eftirliti eða rýmingu. Mun ekki hætta fyrr en varnir verða bættar Flateyringar bíða nú eftir svörum frá yfirvöldum um hvað eigi að gera varðandi yfirvofandi vá. Verja þarf byggðina betur, höfnina og veginn inn á Flateyri þar sem getur myndast mikil snjóflóðahætta. „Ég get rýmt húsið einstaka sinnum en ég er ekki tilbúin til þess til framtíðar. Við hljótum að geta gert aðeins betur. Þetta gerði helling, annars væri ég ekki hérna í dag. Það vantar eitthvað aðeins upp og ég bara trúi ekki öðru en það verði gert. Þetta er ekki einkamál okkar Flateyringa. Ég lofaði níu ára syni mínum að þetta yrði lagað og mamma stendur við það. Það verður ekki friður fyrir mér ef það verður ekki segir Steinunn. Endurmeta hættuna í öðrum byggðarlögum Eins og hún segir er þetta ekki einkamál Flateyringa því flóðin þar í fyrra gera það að verkum að endurmeta þarf hættuna undir leiðigörðum og þvergörðum, sem eiga að stöðva flóð, í öðrum byggðarlögum einnig. „Við þurfum að skoða hvort sambærileg endurskoðun á hættuamti þurfi að fara fram. Meðal annars á Siglufirði, Neskaupstað, Ólafsfirði og Ísafirði. Og viðbúið að eitthvað af þeim hættusvæðum stækki og við verðum að gera ráð fyrir frekari rýmingu þar,“ segir Tómas Jóhannesson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Tómas Jóhannesson, fagstjóri ofanflóða hjá Veðurstofu Íslands. Frá því snjóflóðin féllu árið 1995 hefur Tómas komið að mati á ofanflóðahættu og vörnum hjá Veðurstofu Íslands. Hann bendir á að leiði og þvergarðar hafi ítrekað sannað gildi sitt. Síðustu 20 ár hafi 40 til 50 flóð fallið á leiði og varnargarða sem varið hafi byggðir og komið í veg fyrir tjón. „En menn þurfa að vara sig á því að vera ekki með oftrú á þessum mannvirkjum og ljósi þess að þau hafi verið reist og virkað fyrir nokkur eða meðal eða lítil snjóflóð, þá mega menn ekki sofna á verðinum ef hætta er á stórum flóðum og við verðum að bíða og sjá hvernig mannvirkin virka undir þeim kringumstæðum og þangað til við teljum okkur vera sæmilega örugg, þá verðum við að rýma oftar en við höfðum gert ráð fyrir.“ Hér má sjá þvergarð í Bolungarvík sem á að stöðva flóð.Vísir/Arnar Aðrar varnir eru þó til, þar á meðal stoðvirki. „Það er almenn vitneskja í þessum bransa að stoðvirki er í rauninni öruggasta snjóflóðavörnin, þeirri vörn er langmest beitt í Ölpunum og það felur í sér að reistar eru grindur á upptökusvæðum og snjóflóðin fara bara yfir höfuð ekki af stað.“ Stoðvirki í fjallinu Kubba á Ísafirði sem eiga að koma í veg fyrir að snjóflóð fari af stað.Vísir/Arnar Stoðvirki hafa verið reist á Neskaupstað, Siglufirði og Ísafirði. Reisa á stoðvirki á fleiri stöðum á landinu en ekki hægt að koma þeim fyrir allsstaðar. Óttuðust það versta En hættan af ofanflóðum er ekki bara í formi snjóflóða og því fengu Seyðfirðingar að kynnast 18. desember þegar aurflóð skemmdu á annan tug húsa. Hjónin Aðalheiður Borgþórsdóttir og Sigfinnur Mikaelsson hafa í 37 ár búið í húsi í bænum sem stendur við Búðará. Húsið hafði aldrei verið skilgreint á C-svæði og þeim hafði ekki verið skipað að rýma það þegar aurskriða féll úr hlíðinni. Aðalheiður Borgþórsdóttir og Sigfinnur Mikaelsson. Aurskriða virtist stefna að húsinu þeirra en beygði frá rétt áður.Vísir/Arnar „Ég var hálftíma áður að klára að steypa í kjallaranum með sjö manns. Það var bara tilviljun um morguninn að ég bið steypufólkið að koma klukkutíma fyrr. Þau áttu að koma klukkan eitt en komu klukkan korter í tólf. Það bjargar því að það verður ekki stórslys á fólki hérna. Ég er nýbúinn að ganga frá og rétt kominn inn og er í símanum þegar strákarnir mínir öskra báðir á fullu að fjallið sé að koma á okkur og yngri strákurinn segir: Við erum að fara að deyja! Ég hélt að þetta væri oftúlkun hjá honum og náði að kíkja út um eldhúsgluggann og upp í fjallið og sá flóðbylgju koma niður sem stefndi beint á okkur. Ég fékk sömu tilfinningu, að við myndum aldrei lifa þetta af segir Sigfinnur Mikaelsson. Skriðan virtist stefna beint á húsið. Eldri sonurinn beið uppi á lofti en Sigfinnur og yngri sonurinn leituðu skjóls í sólskála. „Þar erum við og erum bara að bíða eftir högginu því við áttum ekki von á öðru. Þá sjáum við að bílskúrinn sem stóð hérna, hann splundrast. Og svo Framhúsið af stað. En ekki kemur neitt högg. Svo byrjar skriðan að hlaðast upp hérna og það var ótrúleg tilfinning að upplifa þetta.“ Hér má sjá hús Aðalheiðar og Sigfinns. Skriðan fór framhjá húsinu þeirra en tók Framhúsið. Aðalheiður var nýfarin að heiman og stóð neðar í bænum og fylgdist með. „Ég fríkaði út, það var hræðilegt. Maður vissi ekki hvar þetta endaði. Þetta voru svo hræðileg hljóð. Þetta var svo lengi, það var svo mikið magn að koma niður. Maður heyrði það mjög greinilega. Ég fór bara í algjört sjokk og var dofin í nokkra daga á eftir. Þetta var bara skelfing, eitthvað sem maður átti aldrei von á,“ segir Aðalheiður. Skriðan hafði farið framhjá húsinu og feðgarnir heilir á húfi. Þeir komu sér fljótlega út. „þá áttaði maður sig á því að þetta er miklu stærra en maður var búinn að gera sér í hugarlund um þegar maður horfði upp í fjallið. Þá hélt maður fyrst að þetta væri bara hér. Það breyttist þegar maður kom niður á götu og sá að það vantaði alla byggðina fyrir utan,“ segir Sigfinnur. Finnst alvarlegt að ekki var gripið til rýmingar fyrr Íbúafundur hafði verið haldinn á Seyðisfirði nokkrum árum áður þar sem nýtt hættumat var kynnt. Tekið var fram á fundinum að svo mikil hætta yrði ekki yfirvofandi nema í hamfararigningu. Dagana fyrir skriðurnar hafði aldrei mælst jafn mikil úrkoma á Íslandi og á Seyðisfirði. 570 millimetrar á fimm dögum. Úrkoma í Reykjavík á meðalári nær 860 millimetrum. „Við vorum að ganga í gegnum hamfararigningar,“ segir Aðalheiður. „Það vantaði bara skilgreininguna á því,“ bætir Sigfinnur við. Það var ekki búið að rýma svæðið, okkur finnst það svolítið alvarlegt Það var hringt í okkur daginn áður og við vorum bara rosalega róleg. Við sváfum í húsinu nóttina áður og hann var að steypa hérna korter í skriðu. Það vantar skilgreiningu á hamfararingingu. Nú vitum hvað hún er og það hefði þurft að rýma þessar hlíðar miklu fyrr,“ segir Aðalheiður. Býr undir sprungu Rétt utar í bænum hefur Oddný Björk Daníelsdóttir búið ásamt fjölskyldu sinni í 7 ár. Húsið þeirra stendur skammt utan við skriðuna stóru. „Það kemur sprunga frá stóru skriðunni og þeir í raun og veru vita ekki af hverju sú sprunga fór ekki líka niður. Það sem við erum að lesa bókstaflega á milli línanna er að þeir séu bara að bíða eftir að það komi rigningar og fjallið fari yfir húsið.“ Oddný Björk Daníelsdóttir. Húsið sem hún býr í á Seyðisfirði stendur utan við skriðuna stóru sem féll. Stór sprunga opnaðist í hlíðinni fyrir ofan húsið.Vísir/Arnar Húsið hennar var ekki rýmt. „Við hringdum í Veðurstofuna og vildum vita af hverju okkar hús hafði ekki verið rýmt. Þá sögðu þeir að við þyrftum ekkert að óttast því skriðan sem kemur á þetta hús kemur úr Strandartindi, þar væri allt gaddfreðið og við værum alveg örugg. En við treystum því ekki og fórum,“ segir Oddný. Þau fengu að lokum tilmæli um að halda sig þá frá þeim hluta heimilisins sem sneri upp í hlíð og kjallaranum, ætluðu þau að vera heima á annað borð. Vegurinn að heimilinu var ekki á rýmingarsvæði. Hér má sjá hús Oddnýjar rétt utan við skriðuna „Sem betur fer vorum við ekki heima því svo kemur þessi skriða og tekur veginn líka. Þetta virtist vera handahófskennt, hvað var rýmt og hvað var ekki rýmt. Ég er allavega í þeim sporum að ég treysti ekki rýmingu lengur eftir þetta. Íbúar höfðu búið sig undir flóð, en ekkert í líkingu við þetta. „Ég hef búið hérna í sjö ár og alltaf sagt bara að þessar skriður lulli niður og við verðum látin vita og garðurinn minn fyllist af einhverjum viðbjóði. Nú veit ég bara betur. Eitt stykki aurskriða getur tekið hús og fólk.“ Rúmlega 20 sluppu naumlega Varnir fyrir snjóflóð hafa notið forgangs hér á landi því meiri lífshætta stafar af þeim. Seyðfirðingar eru á því að flóðin þar í desember ættu að breyta þeirri stefnu. „Það voru rúmlega 20 manns á þessu svæði sem sluppu naumlega. Eftirlitsmaður stökk upp í þetta mastur og var bara á mitt í milli skriðanna og það slapp einhver rétt úr bíl sem lenti hér í þessari skriðu og svona getum við talið lengi. Það voru tvær á vörubíl og eru að keyra í gegn og rétt náðu að bakka út. Einn inni í húsi sem var fallið saman þegar hann slapp út. Svona eru allar sögurnar,“ segir Aðalheiður. „Við verðum að taka undir það að það þurfi að huga jafnt að þessu og snjóflóðum, þetta var lengri leiðin,“ segir Sigfinnur. Gerir síður ráð fyrir að varnir hefðu einhverju breytt En hefði verið hægt að verja þann hluta Seyðisfjarðar sem er búið að ákveða að byggja ekki aftur á? „Eitt af því sem liggur að baki ákvörðun bæjarstjórnar um að endurbyggja ekki hús á þessu svæði er að aðstæður eru taldar erfiðar til að koma við þarna nokkrum vörnum og þess vegna geri ég síður ráð fyrir því að nokkrar varnir sem hefði verið gripið til í ár eða í fyrra eða síðustu fimm eða tíu árum, í uppbyggingu varna, að þær hefðu breytt neinu um þetta stóra flóð. “ Vísbendingar eru í jarðlögum um stórar skriður sem fallið hafa yfir suðurhluta Seyðisfjarðar. „Þarna eru skriðusvæði þar sem hættumatið gerir ráð fyrir enn stærri skriðum en þessari og þau ummerki um skriðu ná langt út á jafnsléttuna og það eru mjög mörg hús í hættu samkvæmt hættumatinu út af þeim skriðum. Þessi skriða er mjög ákveðin áminning um að það er mikil ástæða til að grípa þar til aðgerða.“ Varnaraðgerðir við þessari vá eru í athugun en of snemmt að fullyrða til hvaða lausna verður gripið, að sögn Tómasar. „Það eru miklu betri möguleikar á að koma við slíkum aðgerðum á þessu öðrum svæðum, þar sem hætta er á enn stærri skriðum, heldur en voru í þessari bröttu hlíð þar sem er svona lítið pláss þar sem þessi stóra skriða féll núna.“ Skriðuhætta sé í nokkrum bæjarfélögum á landinu. „En það er ekkert bæjarfélag í sambærilegri hættu með jafn mörg íbúðarhús og jafn stóran hluta byggðarinnar og Seyðisfjörður. Það er ótvírætt.“ Telja skriðurnar afleiðingar hamfarahlýnunar „Vanalega þegar skriður hafa fallið hérna þá er það í haustrigningunum í ágúst. En að það skuli rigna í hálfan mánuð samfleytt í miðjan desember. Ég held að það muni enginn eftir úrkomu á þessu tíma,“ segir Sigfinnur og bætir við: „Ef maður horfir aftur, kannski 20 til 30 ár, þá eru þetta orðnir svo miklu mildari vetur en voru hérna áður fyrr. Ég held að það beri öllum saman um það. Við erum alveg greinilega að sjá afleiðingar… “ „…hamfarahlýnunar sem margir halda fram að sé að ganga yfir okkur. Þetta er kannski hluti af því,“ segir Aðalheiður. Aðalheiður og Sigfinnur telja rigningarnar í desember afleiðingar loftslagsbreytinga.Vísir/Arnar Hætta af snjóflóðum skapast oftst í tengslum við aftakaveður að vetrarlagi með mikilli snjókomu og skafrenningi. Með hlýnandi veðurfari gætu krapaflóð fallið oftar þegar hlánar og rignir snögglega í snjó. Aurskriður geta fylgt látlausri rigningu og örum leysingum. Hlýindi ógna grjótjöklum Víða í hlíðum eru einnig grjótjöklar, eða þelaurðir, sem er blanda grjóts og íss. Hlýnandi veður ógnar stöðugleika slíkra fyrirbæra sem eykur skriðuhættu. Þelaurðir ógna fyrst og fremst dreifbýli og eru ekki mörg þekkt dæmi um þær fyrir ofan byggð. Þelaurð er að finna í 700 til 800 metra hæð undir Strandartindi sem ógnar atvinnusvæði Seyðisfjarðar. Þelaurð í sjö til átta hundruð metra hæð undir Strandartindi ógnar atvinnusvæði Seyðisfjarðar. Strandartind má sjá á meðfylgjandi mynd. Slíkar skriður féllu úr Mófellshyrnu í Fljótum árið 2012, Árnesfjalli á Ströndum árið 2014 og úr Hleiðargarðsfjalli í Eyjafirði í október. „Þetta getur gerst án sérstaks aðdraganda og það er mjög mikilvægt að finna þá staði þar sem jarðlög af þessum toga eru á hreyfingu og koma hugsanlega fyrir mælibúnaði. Því við teljum að það sé þó einhver aðdragandi sem gæti mælst í hreyfingu jarðlaganna skömmu á undan skriðunni,“ segir Tómas um þelaurðir. Þá getur bráðnun jökla valdið tíðari skriðuföllum úr hlíðum í grennd við þá, og jafnvel út í jökullón sem ógnar ferðamannastöðum og byggðum í kringum jöklana. Allir sammála um að hraða uppbyggingu Ljóst er að hætturnar eru víða en vísindamenn eru sannfærðir um að hægt sé að minnka skaðann af þeim með aðgerðum. Ofanflóðasjóður heldur utan um uppbyggingu ofanflóðavarna og er fjármagnaður með gjaldi sem er lagt á allar fasteignir sem greidd eru brunaiðgjöld af. Undanfarin ár hefur uppbygging ofanflóða aðeins numið um 45 – 55 prósentum af innheimtu gjaldsins en eftir atburðina á Flateyri ákváðu yfirvöld að auka í uppbygginguna á ný. Tómas segir marga þeirrar skoðunar að 20 til 30 ár sé of langur tími til að ætla sér að klára uppbyggingu ofanflóðavarna hér á landi. „Það stefndi í að þessu lyki ekki fyrr en eftir 2050 og ég held að allir hlutaðeigandi hafi verið sammála um að það væri algjörlega óviðeigandi. Nú erum menn að stytta þennan tíma og verður að koma í ljós hvað menn treysta sér til að byggja þetta upp hratt en vonandi verður það frekar þannig að þetta taki tíu ár heldur en tuttugu til þrjátíu ár. Þetta tekur óhjákvæmilega allmörg ár og tíu eru kannski raunhæf tala, svona tæknilega séð, en það stefndi í þrjátíu og það er þótti mörgum allt of langt,“ segir Tómas. Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar mun áfram fjalla um ofanflóð og varnir gegn þeim. Ljóst er á viðmælendum Kompáss að beðið er eftir skýrum svörum og aðgerðum. Þó margt hafi áunnist frá lokum síðustu aldar er ærið verk fyrir höndum. Kompás Náttúruhamfarir Snjóflóð á Flateyri og Suðureyri Aurskriður á Seyðisfirði Almannavarnir Múlaþing Ísafjarðarbær Fréttaskýringar Mest lesið Yfirmaður strandgæslunnar látinn fjúka Erlent Kæra ákvörðun Trumps: „Hann getur ekki breytt stjórnarskránni með einu pennastriki“ Erlent Fjárfesta 70 billjónum í gervigreind Erlent Heitar umræður um lokun flugbrautar Innlent Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“ Innlent Sýklalyfjaónæmi raunveruleg ógn Fréttir Sjúkraflug mikilvægara en „að rífast um einhver tré“ Innlent Hefur ekki fengið verkefni í mánuð Innlent Kristrún væntir áframhaldandi náinna samskipta við Bandaríkin Innlent Kallar eftir þjóðarátaki: Skólastjóri segir agaleysi innan skólanna óboðlegt Innlent
Íbúar sem Kómpás ræddi við á Flateyri og Seyðisfirði eiga það sameiginlegt að hafa ekki verið gert að rýma hús sín áður en hamfararnir riðu yfir. Sigfinnur Mikaelsson var heima með sonum sínum, og nýbúinn að kveðja fólk sem hafði hjálpað honum að steypa í kjallaranum á heimili þeirra, þegar aurskriða stefndi að húsi þeirra á Seyðisfirði: „Og sá flóðbylgju koma niður sem stefndi beint á okkur. Ég fékk sömu tilfinningu, að við myndum aldrei lifa þetta af.“ Oddný Björk Daníelsdóttir býr skammt utan við það svæði sem stóra skriðan féll á Seyðisfirði. Stór sprunga opnaðist í hlíðinni fyrir ofan heimili hennar: „Ég er allavega í þeim sporum að ég treysti ekki rýmingu lengur eftir þetta.“ Í Kompás fjöllum við um aðstæður þeirra sem þurfa að lifa við ofanflóðahættu og hvað sé hægt að gera í því. Við ræðum við íbúa á svæðum sem segja frá sinni upplifun og hvernig rannsóknum framvindur. Þögn sló á þjóðina Eftir mannskæð snjóflóð á Vestfjörðum árið 1995 var ákveðið að auka þungan í uppbyggingu varnarvirkja hér á landi. Verkið er um það bil hálfnað en því átti fyrst að ljúka árið 2010, svo 2020 og nú 2050. Eftir ofanflóðin á Flateyri og Seyðisfirði í fyrra eru flestir sammála um að hraða beri þeirri þróun. Þögn sló á þjóðina þegar fréttist að tvö snjóflóð hefðu farið yfir leiðigarðana á Flateyri að kvöldi 14. janúar í fyrra. Fyrra flóðið grandaði bátum í höfninni en seinna flóðið fór yfir hús í Ólafstúni. Vaskir björgunarsveitarmenn björguðu unglingsstúlku úr húsinu. Eftir atburðinn fluttu stúlkan og fjölskylda hennar frá Flateyri en þar býr fólk sem bíður eftir að öryggi þeirra verði tryggt. Þar á meðal er Steinunn Guðný Einarsdóttir borinn og barnfæddur Flateyringur sem býr á móti húsinu í Ólafstúni sem snjóflóðið fór yfir. Áfall að uppgötva að vörnin sé ekki 100 prósent „Auðvitað er þetta sjokk að maður sé varinn en ekki 100 prósent. Ég var svo rosalega örugg og það var eitthvað sem reif plásturinn af, að uppgötva að maður væri ekki 100 prósent hérna,“ segir Steinunn. Fyrra flóðið sökkti línubátnum Blossa sem var í eigu foreldra hennar og bróður. Seinna flóðið skall á skömmu síðar. Steinunn Guðný Einarsdóttir býr beint á móti húsinu í Ólafstúni sem flóðið fór yfir í fyrra.Vísir/Arnar „Ég sé Önnu nágranna minn hjálpa börnum sínum út um gluggann. Svo koma þau hérna yfir og þá fæ ég svaka endurlit til 1995. Hún segir að dóttir sín sé föst inni í herbergi. Mér var hugsað til frænku minnar sem var í svipuðu aðstæðum 95. Þá varð þetta rosalega raunverulegt og erfitt. Eftir snjóflóðið á Flateyri 1995 var ákveðið að reisa leiðigarða fyrir ofan byggðina til að bægja flóðum úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili frá. Íbúar á Flateyri höfðu áhyggjur af því að garðurinn myndi leiða flóð í höfnina. „Eins og mamma benti á á fundi þegar þetta var kynnt að leiðigarðurinn úr Skollahvilftinni væri að leiða beint út í höfnina. Þá stóðu sérfræðingarnir upp og sögðu að litla lónið myndi taka flóðið, sem varð aldeilis ekki raunin.“ Bentu á að flóð færi í höfnina Móðir Steinunnar er Guðrún Pálsdóttir en hún Guðmundur Björgvinsson, sem bæði hafa búið á svæðinu alla ævi, bentu á þetta á kynningarfundi áður en garðarnir voru reistir. Guðmundur hefur fylgst með hlíðinni fyrir ofan Flateyri allt sitt líf. Að fenginni reynslu gerði hann sér grein fyrir að garðurinn myndi leiða flóð í höfnina. Guðmundur Björgvinsson hefur búið á Flateyri alla ævi og þekkirnar hlíðarnar þar betur en margir. Vísir/Arnar „Og maður gerði sér alveg grein fyrir því að stór flóð myndu valda miklu usla. Svo þegar farvegurinn er þrengdur svona þá eykst álagið gagnvart höfninni. Við erum þarna á þessum fundi að benda á þetta, ég og Guðrún Pálsdóttir. Hún var þá með útgerð hérna og átti bát í höfninni og hafði auðvitað áhyggjur af sinni atvinnu og öryggi hafnarinnar. Þessu var nú tekið fremur léttúðlega og hálfpartinn hlegið að þessum athugasemdum segir Guðmundur. Guðmundur fékk síðar meir staðfestingu á því að ábendingar hans varðandi hönnun leiðigarðanna hefðu verið réttar. Markmiðið hefði þó verið að verja byggðina, ekki höfnina, og það hefði að stórum hluta tekist. Guðmundur þekkir hlíðarnar fyrir ofan Flateyri svo vel að honum tókst að teikna farvegi flóðanna í fyrra á loftmynd með nokkurri nákvæmni út frá frásögnum af því. Hann telur að leita þurfi meira til heimamanna við hönnun varnarvirkja. „Það eru margir sem hafa þekkingu og hafa reynslu og þekkja náttúrna betur á sínu svæði. Auðvitað á að ræða við fólk um slíka hluti. Þetta er ekki allt gert á teikniborði án þess að skoða stóru myndina.“ Ólíkur aðdragandi Flóðin á Flateyri á síðasta ári sættu miklum tíðindum því þau fóru niður hlíðarnar á fáheyrðum hraða og ofan á þeim var einskonar skopplag sem fór yfir leiðigarðana. Þegar flóðið féll á Flateyri árið 1995 var aftakaveður á svæðinu. Grípa átti til rýmingar ef slíkt óveður gerði aftur. Dagana fyrir flóðin í fyrra var veðrið skaplegt, en snjósöfnun mikil. Aðdragandi flóðanna var því um margt ólíkur sem hefur breytt hættumatinu á Flateyri á þann veg að gripið verður oftar til rýmingar í framtíðinni, því hættan er til staðar við fjölbreyttari aðstæður en áður var talið. Leiðigarðarnir á Flateyri. Á vinstri hönd sést leiðigarðurinn sem á að bægja flóði úr Skollahvilft frá bænum. Á hægri hönd má sjá garðinn sem á að leiða flóð úr Innra-Bæjargili frá bænum.Vísir/Arnar Hættusvæði vegna ofanflóða eru þrjú, A – B og C, þar sem C er hættulegast. Búi einhver á svæði C skal tryggja öryggi með því að kaupa upp húsnæði eða verja það með varnarvirki. Hins vegar er hægt að tryggja öryggi þeirra sem búa á A eða B svæði með eftirliti eða rýmingu. Mun ekki hætta fyrr en varnir verða bættar Flateyringar bíða nú eftir svörum frá yfirvöldum um hvað eigi að gera varðandi yfirvofandi vá. Verja þarf byggðina betur, höfnina og veginn inn á Flateyri þar sem getur myndast mikil snjóflóðahætta. „Ég get rýmt húsið einstaka sinnum en ég er ekki tilbúin til þess til framtíðar. Við hljótum að geta gert aðeins betur. Þetta gerði helling, annars væri ég ekki hérna í dag. Það vantar eitthvað aðeins upp og ég bara trúi ekki öðru en það verði gert. Þetta er ekki einkamál okkar Flateyringa. Ég lofaði níu ára syni mínum að þetta yrði lagað og mamma stendur við það. Það verður ekki friður fyrir mér ef það verður ekki segir Steinunn. Endurmeta hættuna í öðrum byggðarlögum Eins og hún segir er þetta ekki einkamál Flateyringa því flóðin þar í fyrra gera það að verkum að endurmeta þarf hættuna undir leiðigörðum og þvergörðum, sem eiga að stöðva flóð, í öðrum byggðarlögum einnig. „Við þurfum að skoða hvort sambærileg endurskoðun á hættuamti þurfi að fara fram. Meðal annars á Siglufirði, Neskaupstað, Ólafsfirði og Ísafirði. Og viðbúið að eitthvað af þeim hættusvæðum stækki og við verðum að gera ráð fyrir frekari rýmingu þar,“ segir Tómas Jóhannesson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Tómas Jóhannesson, fagstjóri ofanflóða hjá Veðurstofu Íslands. Frá því snjóflóðin féllu árið 1995 hefur Tómas komið að mati á ofanflóðahættu og vörnum hjá Veðurstofu Íslands. Hann bendir á að leiði og þvergarðar hafi ítrekað sannað gildi sitt. Síðustu 20 ár hafi 40 til 50 flóð fallið á leiði og varnargarða sem varið hafi byggðir og komið í veg fyrir tjón. „En menn þurfa að vara sig á því að vera ekki með oftrú á þessum mannvirkjum og ljósi þess að þau hafi verið reist og virkað fyrir nokkur eða meðal eða lítil snjóflóð, þá mega menn ekki sofna á verðinum ef hætta er á stórum flóðum og við verðum að bíða og sjá hvernig mannvirkin virka undir þeim kringumstæðum og þangað til við teljum okkur vera sæmilega örugg, þá verðum við að rýma oftar en við höfðum gert ráð fyrir.“ Hér má sjá þvergarð í Bolungarvík sem á að stöðva flóð.Vísir/Arnar Aðrar varnir eru þó til, þar á meðal stoðvirki. „Það er almenn vitneskja í þessum bransa að stoðvirki er í rauninni öruggasta snjóflóðavörnin, þeirri vörn er langmest beitt í Ölpunum og það felur í sér að reistar eru grindur á upptökusvæðum og snjóflóðin fara bara yfir höfuð ekki af stað.“ Stoðvirki í fjallinu Kubba á Ísafirði sem eiga að koma í veg fyrir að snjóflóð fari af stað.Vísir/Arnar Stoðvirki hafa verið reist á Neskaupstað, Siglufirði og Ísafirði. Reisa á stoðvirki á fleiri stöðum á landinu en ekki hægt að koma þeim fyrir allsstaðar. Óttuðust það versta En hættan af ofanflóðum er ekki bara í formi snjóflóða og því fengu Seyðfirðingar að kynnast 18. desember þegar aurflóð skemmdu á annan tug húsa. Hjónin Aðalheiður Borgþórsdóttir og Sigfinnur Mikaelsson hafa í 37 ár búið í húsi í bænum sem stendur við Búðará. Húsið hafði aldrei verið skilgreint á C-svæði og þeim hafði ekki verið skipað að rýma það þegar aurskriða féll úr hlíðinni. Aðalheiður Borgþórsdóttir og Sigfinnur Mikaelsson. Aurskriða virtist stefna að húsinu þeirra en beygði frá rétt áður.Vísir/Arnar „Ég var hálftíma áður að klára að steypa í kjallaranum með sjö manns. Það var bara tilviljun um morguninn að ég bið steypufólkið að koma klukkutíma fyrr. Þau áttu að koma klukkan eitt en komu klukkan korter í tólf. Það bjargar því að það verður ekki stórslys á fólki hérna. Ég er nýbúinn að ganga frá og rétt kominn inn og er í símanum þegar strákarnir mínir öskra báðir á fullu að fjallið sé að koma á okkur og yngri strákurinn segir: Við erum að fara að deyja! Ég hélt að þetta væri oftúlkun hjá honum og náði að kíkja út um eldhúsgluggann og upp í fjallið og sá flóðbylgju koma niður sem stefndi beint á okkur. Ég fékk sömu tilfinningu, að við myndum aldrei lifa þetta af segir Sigfinnur Mikaelsson. Skriðan virtist stefna beint á húsið. Eldri sonurinn beið uppi á lofti en Sigfinnur og yngri sonurinn leituðu skjóls í sólskála. „Þar erum við og erum bara að bíða eftir högginu því við áttum ekki von á öðru. Þá sjáum við að bílskúrinn sem stóð hérna, hann splundrast. Og svo Framhúsið af stað. En ekki kemur neitt högg. Svo byrjar skriðan að hlaðast upp hérna og það var ótrúleg tilfinning að upplifa þetta.“ Hér má sjá hús Aðalheiðar og Sigfinns. Skriðan fór framhjá húsinu þeirra en tók Framhúsið. Aðalheiður var nýfarin að heiman og stóð neðar í bænum og fylgdist með. „Ég fríkaði út, það var hræðilegt. Maður vissi ekki hvar þetta endaði. Þetta voru svo hræðileg hljóð. Þetta var svo lengi, það var svo mikið magn að koma niður. Maður heyrði það mjög greinilega. Ég fór bara í algjört sjokk og var dofin í nokkra daga á eftir. Þetta var bara skelfing, eitthvað sem maður átti aldrei von á,“ segir Aðalheiður. Skriðan hafði farið framhjá húsinu og feðgarnir heilir á húfi. Þeir komu sér fljótlega út. „þá áttaði maður sig á því að þetta er miklu stærra en maður var búinn að gera sér í hugarlund um þegar maður horfði upp í fjallið. Þá hélt maður fyrst að þetta væri bara hér. Það breyttist þegar maður kom niður á götu og sá að það vantaði alla byggðina fyrir utan,“ segir Sigfinnur. Finnst alvarlegt að ekki var gripið til rýmingar fyrr Íbúafundur hafði verið haldinn á Seyðisfirði nokkrum árum áður þar sem nýtt hættumat var kynnt. Tekið var fram á fundinum að svo mikil hætta yrði ekki yfirvofandi nema í hamfararigningu. Dagana fyrir skriðurnar hafði aldrei mælst jafn mikil úrkoma á Íslandi og á Seyðisfirði. 570 millimetrar á fimm dögum. Úrkoma í Reykjavík á meðalári nær 860 millimetrum. „Við vorum að ganga í gegnum hamfararigningar,“ segir Aðalheiður. „Það vantaði bara skilgreininguna á því,“ bætir Sigfinnur við. Það var ekki búið að rýma svæðið, okkur finnst það svolítið alvarlegt Það var hringt í okkur daginn áður og við vorum bara rosalega róleg. Við sváfum í húsinu nóttina áður og hann var að steypa hérna korter í skriðu. Það vantar skilgreiningu á hamfararingingu. Nú vitum hvað hún er og það hefði þurft að rýma þessar hlíðar miklu fyrr,“ segir Aðalheiður. Býr undir sprungu Rétt utar í bænum hefur Oddný Björk Daníelsdóttir búið ásamt fjölskyldu sinni í 7 ár. Húsið þeirra stendur skammt utan við skriðuna stóru. „Það kemur sprunga frá stóru skriðunni og þeir í raun og veru vita ekki af hverju sú sprunga fór ekki líka niður. Það sem við erum að lesa bókstaflega á milli línanna er að þeir séu bara að bíða eftir að það komi rigningar og fjallið fari yfir húsið.“ Oddný Björk Daníelsdóttir. Húsið sem hún býr í á Seyðisfirði stendur utan við skriðuna stóru sem féll. Stór sprunga opnaðist í hlíðinni fyrir ofan húsið.Vísir/Arnar Húsið hennar var ekki rýmt. „Við hringdum í Veðurstofuna og vildum vita af hverju okkar hús hafði ekki verið rýmt. Þá sögðu þeir að við þyrftum ekkert að óttast því skriðan sem kemur á þetta hús kemur úr Strandartindi, þar væri allt gaddfreðið og við værum alveg örugg. En við treystum því ekki og fórum,“ segir Oddný. Þau fengu að lokum tilmæli um að halda sig þá frá þeim hluta heimilisins sem sneri upp í hlíð og kjallaranum, ætluðu þau að vera heima á annað borð. Vegurinn að heimilinu var ekki á rýmingarsvæði. Hér má sjá hús Oddnýjar rétt utan við skriðuna „Sem betur fer vorum við ekki heima því svo kemur þessi skriða og tekur veginn líka. Þetta virtist vera handahófskennt, hvað var rýmt og hvað var ekki rýmt. Ég er allavega í þeim sporum að ég treysti ekki rýmingu lengur eftir þetta. Íbúar höfðu búið sig undir flóð, en ekkert í líkingu við þetta. „Ég hef búið hérna í sjö ár og alltaf sagt bara að þessar skriður lulli niður og við verðum látin vita og garðurinn minn fyllist af einhverjum viðbjóði. Nú veit ég bara betur. Eitt stykki aurskriða getur tekið hús og fólk.“ Rúmlega 20 sluppu naumlega Varnir fyrir snjóflóð hafa notið forgangs hér á landi því meiri lífshætta stafar af þeim. Seyðfirðingar eru á því að flóðin þar í desember ættu að breyta þeirri stefnu. „Það voru rúmlega 20 manns á þessu svæði sem sluppu naumlega. Eftirlitsmaður stökk upp í þetta mastur og var bara á mitt í milli skriðanna og það slapp einhver rétt úr bíl sem lenti hér í þessari skriðu og svona getum við talið lengi. Það voru tvær á vörubíl og eru að keyra í gegn og rétt náðu að bakka út. Einn inni í húsi sem var fallið saman þegar hann slapp út. Svona eru allar sögurnar,“ segir Aðalheiður. „Við verðum að taka undir það að það þurfi að huga jafnt að þessu og snjóflóðum, þetta var lengri leiðin,“ segir Sigfinnur. Gerir síður ráð fyrir að varnir hefðu einhverju breytt En hefði verið hægt að verja þann hluta Seyðisfjarðar sem er búið að ákveða að byggja ekki aftur á? „Eitt af því sem liggur að baki ákvörðun bæjarstjórnar um að endurbyggja ekki hús á þessu svæði er að aðstæður eru taldar erfiðar til að koma við þarna nokkrum vörnum og þess vegna geri ég síður ráð fyrir því að nokkrar varnir sem hefði verið gripið til í ár eða í fyrra eða síðustu fimm eða tíu árum, í uppbyggingu varna, að þær hefðu breytt neinu um þetta stóra flóð. “ Vísbendingar eru í jarðlögum um stórar skriður sem fallið hafa yfir suðurhluta Seyðisfjarðar. „Þarna eru skriðusvæði þar sem hættumatið gerir ráð fyrir enn stærri skriðum en þessari og þau ummerki um skriðu ná langt út á jafnsléttuna og það eru mjög mörg hús í hættu samkvæmt hættumatinu út af þeim skriðum. Þessi skriða er mjög ákveðin áminning um að það er mikil ástæða til að grípa þar til aðgerða.“ Varnaraðgerðir við þessari vá eru í athugun en of snemmt að fullyrða til hvaða lausna verður gripið, að sögn Tómasar. „Það eru miklu betri möguleikar á að koma við slíkum aðgerðum á þessu öðrum svæðum, þar sem hætta er á enn stærri skriðum, heldur en voru í þessari bröttu hlíð þar sem er svona lítið pláss þar sem þessi stóra skriða féll núna.“ Skriðuhætta sé í nokkrum bæjarfélögum á landinu. „En það er ekkert bæjarfélag í sambærilegri hættu með jafn mörg íbúðarhús og jafn stóran hluta byggðarinnar og Seyðisfjörður. Það er ótvírætt.“ Telja skriðurnar afleiðingar hamfarahlýnunar „Vanalega þegar skriður hafa fallið hérna þá er það í haustrigningunum í ágúst. En að það skuli rigna í hálfan mánuð samfleytt í miðjan desember. Ég held að það muni enginn eftir úrkomu á þessu tíma,“ segir Sigfinnur og bætir við: „Ef maður horfir aftur, kannski 20 til 30 ár, þá eru þetta orðnir svo miklu mildari vetur en voru hérna áður fyrr. Ég held að það beri öllum saman um það. Við erum alveg greinilega að sjá afleiðingar… “ „…hamfarahlýnunar sem margir halda fram að sé að ganga yfir okkur. Þetta er kannski hluti af því,“ segir Aðalheiður. Aðalheiður og Sigfinnur telja rigningarnar í desember afleiðingar loftslagsbreytinga.Vísir/Arnar Hætta af snjóflóðum skapast oftst í tengslum við aftakaveður að vetrarlagi með mikilli snjókomu og skafrenningi. Með hlýnandi veðurfari gætu krapaflóð fallið oftar þegar hlánar og rignir snögglega í snjó. Aurskriður geta fylgt látlausri rigningu og örum leysingum. Hlýindi ógna grjótjöklum Víða í hlíðum eru einnig grjótjöklar, eða þelaurðir, sem er blanda grjóts og íss. Hlýnandi veður ógnar stöðugleika slíkra fyrirbæra sem eykur skriðuhættu. Þelaurðir ógna fyrst og fremst dreifbýli og eru ekki mörg þekkt dæmi um þær fyrir ofan byggð. Þelaurð er að finna í 700 til 800 metra hæð undir Strandartindi sem ógnar atvinnusvæði Seyðisfjarðar. Þelaurð í sjö til átta hundruð metra hæð undir Strandartindi ógnar atvinnusvæði Seyðisfjarðar. Strandartind má sjá á meðfylgjandi mynd. Slíkar skriður féllu úr Mófellshyrnu í Fljótum árið 2012, Árnesfjalli á Ströndum árið 2014 og úr Hleiðargarðsfjalli í Eyjafirði í október. „Þetta getur gerst án sérstaks aðdraganda og það er mjög mikilvægt að finna þá staði þar sem jarðlög af þessum toga eru á hreyfingu og koma hugsanlega fyrir mælibúnaði. Því við teljum að það sé þó einhver aðdragandi sem gæti mælst í hreyfingu jarðlaganna skömmu á undan skriðunni,“ segir Tómas um þelaurðir. Þá getur bráðnun jökla valdið tíðari skriðuföllum úr hlíðum í grennd við þá, og jafnvel út í jökullón sem ógnar ferðamannastöðum og byggðum í kringum jöklana. Allir sammála um að hraða uppbyggingu Ljóst er að hætturnar eru víða en vísindamenn eru sannfærðir um að hægt sé að minnka skaðann af þeim með aðgerðum. Ofanflóðasjóður heldur utan um uppbyggingu ofanflóðavarna og er fjármagnaður með gjaldi sem er lagt á allar fasteignir sem greidd eru brunaiðgjöld af. Undanfarin ár hefur uppbygging ofanflóða aðeins numið um 45 – 55 prósentum af innheimtu gjaldsins en eftir atburðina á Flateyri ákváðu yfirvöld að auka í uppbygginguna á ný. Tómas segir marga þeirrar skoðunar að 20 til 30 ár sé of langur tími til að ætla sér að klára uppbyggingu ofanflóðavarna hér á landi. „Það stefndi í að þessu lyki ekki fyrr en eftir 2050 og ég held að allir hlutaðeigandi hafi verið sammála um að það væri algjörlega óviðeigandi. Nú erum menn að stytta þennan tíma og verður að koma í ljós hvað menn treysta sér til að byggja þetta upp hratt en vonandi verður það frekar þannig að þetta taki tíu ár heldur en tuttugu til þrjátíu ár. Þetta tekur óhjákvæmilega allmörg ár og tíu eru kannski raunhæf tala, svona tæknilega séð, en það stefndi í þrjátíu og það er þótti mörgum allt of langt,“ segir Tómas. Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar mun áfram fjalla um ofanflóð og varnir gegn þeim. Ljóst er á viðmælendum Kompáss að beðið er eftir skýrum svörum og aðgerðum. Þó margt hafi áunnist frá lokum síðustu aldar er ærið verk fyrir höndum.