Erlent

Neituðu að jarða mann vegna þess að hann var svartur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekkja lögreglumannsins fékk ekki að kaupa reit í kirkjugarðinum vegna þess að eiginmaður hennar var svartur. Mynd tengist fréttinni ekki beint.
Ekkja lögreglumannsins fékk ekki að kaupa reit í kirkjugarðinum vegna þess að eiginmaður hennar var svartur. Mynd tengist fréttinni ekki beint. Vísir/getty

Stjórnendur kirkjugarðs í Louisiana í Bandaríkjunum báðu ekkju lögreglumanns afsökunar í gær, eftir að hafa neitað að jarða eiginmann hennar vegna þess að hann var svartur. Aldagamlar reglur, sem enn voru í gildi þar til í gær, kváðu á um að aðeins mætti jarðsetja hvítt fólk í kirkjugarðinum.

Lögreglumaðurinn Darrell Semien, sem var svartur, lést úr krabbameini á sunnudags. Ekkja hans, Karla, reyndi í kjölfarið að kaupa reit í Oaklin Springs-kirkjugarðinum, hvar Darrell yrði jarðaður. Þá var henni hins vegar tjáð að kveðið væri um það í kaupsamningi kirkjugarðsins að þar mætti aðeins jarða hvítt fólk.

Karla lýsti yfir vanþóknun sinni á málinu á Facebook í gær. Stjórnarformaður kirkjugarðsins sagði í kjölfarið að enginn í stjórninni hefði vitað af þessum gömlu reglum. Þær væru „hryllilegar“ og „heimskulegar“. Þær hefðu verið felldar úr gildi. Þá hefði aldraðri frænku hans, starfsmanninum sem meinaði ekkjunni að kaupa reit með vísan til reglnanna, verið sagt upp.

Stjórnarformaðurinn bauð fjölskyldu Semiens reit í kirkjugarðinum eftir að málið kom upp. Fjölskyldan hafnaði boðinu og sagðist frekar myndu vilja leggja hann annars staðar til hinstu hvílu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×