Erlent

Segir mikilvægt að bólusetja marga hratt vegna nýrra afbrigða

Samúel Karl Ólason skrifar
Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna.
Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon)

Dr. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, segir mikilvægt að bólusetja sem flesta á sem skömmum tíma og hægt er. Að ný afbrigði af nýju kórónuveirunni, sem veldur Covid-19, þýði að vísindamenn verði að vera á tánum.

AP fréttaveitan hefur eftir Fauci að framleiðendur bóluefna þurfi að vera tilbúnir til að breyta bóluefnum sínum hratt með tilliti til nýrra afbrigða en að svo stöddu virðist afbrigðin ekki hafa mikil áhrif á virkni þeirra bóluefna sem til eru.

Fauci sagði einnig að vegna fjölgunar afbrigða veirunnar væri mikilvægt að bólusetja sem flesta hratt, til að drafa úr dreifingu veirunnar og þar af leiðandi tækifærum hennar til að mynda ný afbrigði.

Bóluefni belgíska lyfjafyrirtækisins Janssen virkar til dæmis verr á afbrigði veirunnar sem greindist fyrst í Suður-Afríku.

Sjá einnig: Bóluefni Janssen með 66 prósent virkni

Á sama blaðamannafundi í dag sagði Dr. Rochelle Walensky, yfirmaður Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna, að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn ættu að nálgast hvert smit Covid-19 eins og um nýtt afbrigði væri að ræða.

Tvö afbrigði frá Suður-Afríku hafa greinst í Suður-Karólínu og óttast ráðamenn í Bandaríkjunum að það afbrigði veirunnar gæti orðið ráðandi þar í landi eftir nokkra mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×