Körfubolti

Stórveldaslagur í Garðinum í Boston

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jayson Tatum og LeBron James kljást í nótt þegar Boston Celtics tekur á móti Los Angeles Lakers.
Jayson Tatum og LeBron James kljást í nótt þegar Boston Celtics tekur á móti Los Angeles Lakers. getty/Maddie Meyer

Stórveldin og sigursælustu lið NBA-deildarinnar í körfubolta, Boston Celtics og Los Angeles Lakers, eigast við í Boston í nótt.

Það er alltaf stór stund þegar þessi lið mætast enda þau sem hafa unnið langflesta titla í sögu NBA. Lakers vann sinn sautjánda meistaratitil í fyrra og jafnaði þar með við Boston. Saman hafa þessi lið unnið 34 af 74 meistaratitlum í sögu NBA-deildarinnar.

Lakers hefur tapað síðustu tveimur leikjum sínum, gegn Detroit Pistons og Philadelphia 76ers, eftir að hafa unnið fyrstu tíu útileiki sína á tímabilinu. Lakers lýkur Austurstrandarferð sinni þegar liðið sækir Atlanta Hawks heim á þriðjudaginn.

Boston hefur gengið vel á heimavelli það sem af er tímabili og unnið fimm af sjö leikjum sínum þar.

Boston hefur endurheimt Jayson Tatum sem missti af nokkrum leikjum vegna kórónuveirunnar. Jaylen Brown bar þyngri byrðar í sóknarleik Boston í fjarveru Tatums. Hann er sjöundi stigahæsti leikmaður deildarinnar með 27,1 stig að meðaltali í leik. Brown hefur bætt sig mikið milli tímabila en í fyrra var hann með 20,3 stig að meðaltali í leik.

Hjá Lakers er LeBron James sem fyrr í aðalhlutverki. Hann slær ekkert af þrátt fyrir að vera orðinn 36 ára og er með 25,5 stig, 7,8 fráköst og 7,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Hin stórstjarnan í Lakers, Anthony Davis, missti af leiknum gegn Detroit vegna meiðsla og óvíst er hvort hann verður með gegn Boston í nótt.

Þjóðverjinn Dennis Schröder, sem kom frá Oklahoma City Thunder fyrir tímabilið, hefur svo verið þriðja hjólið undir Lakers-vagninum í vetur. Hann er með 13,6 stig, 3,7 fráköst og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Leikur Boston og Lakers hefst klukkan 01:30 í nótt og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×