Erlent

Dauðsföllum fjölgar hratt í Mexíkó

Samúel Karl Ólason skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn bólusettir í Mexíkó.
Heilbrigðisstarfsmenn bólusettir í Mexíkó. EPA/Francisco Guasco

Fjöldi þeirra sem hafa dáið vegna Covid-19 í Mexíkó hefur aukist hratt að undanförnu. Nú hefur landið tekið fram úr Indlandi í dauðsföllum og er nú í þriðja sæti á heimsvísu.

Samkvæmt opinberum tölum sem voru uppfærðar í morgun hafa 155.145 Mexíkóar dáið vegna Covid-19, svo vitað sé. 1.506 dauðsföll bættust við tölurnar í morgun. Alls hafa 1,82 milljónir greinst smitaðir af veirunni.

AP fréttaveitan segir að í skimun sé verulega takmörkuð í Mexíkó og sé fjöldi látinna undanfarna mánuði borinn saman við meðaltal dauðsfalla undanfarin ár séu mögulegt að allt að 195 þúsund hafi dáið vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar.

Andrés Manuel López Obrador, forseti Mexíkó, greindist með Covid-19, sem nýja kórónuveiran veldur, um síðustu helgi. Hann er undir læknishöndum í forsetahöll Mexíkó.

Hann hefur ítrekað haldið því fram að undanförnu að endir faraldursins sé rétt handan við hornið. Um mánaða skeið hefur hann dregið úr alvarleika faraldursins.

New York Times segir að mikið álag sé á sjúkrahúsum í Mexíkó, þrátt fyrir að margir Mexíkóar treysti sjúkrahúsum landsins ekki og haldi sig frekar heima í veikindum.

Samkvæmt Johns Hopinks háskólanum, sem heldur utan um opinberar tölur, hafa 433.213 dáið í Bandaríkjunum. 221.547 í Brasilíu og, eins og áður segir, 155.145 í Mexíkó. Á Indlandi hafa 154.010 dáið og 103.324 í Bretlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×