Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak. - Valur 98-89 | Annar sigur Þórs í röð

Karl Jónsson skrifar
0A50C2D198146B75FE299F8FB234C25184A1D9BC0FD3E8D075EBE676BA2D5C9C_713x0
vísir/vilhelm

Þórsarar voru í góðu færi á að tengja tvo sigurleiki saman þegar Valsmenn komu í heimsókn í Höllina í dag. Leikurinn var nánast á messutíma, eða kl. 15.30 vegna hagræðis fyrir aðkomuliðið að komast fram og til baka með flugi. Í stuttu máli var ljóst strax í upphafi að Þórsarar ætluðu að keyra upp hraðann og baráttuna í vörninni og sigur þeirra var mjög sanngjarn 98-89.

Dedrick Basile fór á kostum í liði Þórs og daðraði við þrefalda tvennu. Hann skoraði 28 stig, tók 8 fráköst og sendi 9 stoðsendingar. Framlagspunktar upp á 36 stig. Ivan Alcolado fór einnig mikinn, var stigahæstur með 29 stig og tók heil 15 fráköst. Srdan Stojanovic hefur oft leikið betur en hann hitti aðeins úr tveimur skotum af 7 en setti öll vítin sín niður, 8 talsins og lauk leik með 14 stig. Kolbeinn Fannar Gíslason var mjög flottur, setti 12 stig þar af þrjár þriggja stiga körfur. Þá komu Smári Jónsson og Hlynur Einarsson með sín þrjú stigin hvor. Ungu strákarnir hjá Þór eru að fá stærra hlutverk af bekknum og Bjarka Ármanni tekst vel að virkja þá í róteringu liðsins.

Hjá Valsmönnum var Miguel Cardoso með 20 stig og 6 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij var með 13, Sinisa Bilic og Jón Arnór með 12 og Finnur Atli setti 11 og tók 6 fráköst.

Valsmenn mættu án Kristófers Acox til leiks í Höllinni á Akureyri. Kristófer var að vísu á svæðinu en ekki í leikmannahópnum vegna meiðsla. Það má segja að Þórsarar hafi gengið á lagið strax í upphafi, keyrðu upp hraðann og voru drifnir áfram af frábærum leik Dedrick Basile sem sprengdi vörn Valsara hvað eftir annað með hraða sínum. Þá hitti hann mjög vel. Ivan Alcolada var öflugur undir körfunni og átti Pavel í basli með hann. Sinisa Bilic hélt hitti vel í fyrsta leikhluta og hélt Völsurum gangandi á tímabili. En gestirnir réðu illa við hraðan bolta Þórsara sem bjuggu sér til prýðisfæri um allan völlinn. 11 stiga forskot Þórsara eftir fyrsta leikhlutann 31-20.

Í 2. leikhluta breyttu Valsarar yfir í svæðisvörn á tímabili sem Þór náði oftast að leysa vel. Finnur Atli var öflugur undir körfu Þórsara og gerði þeim lífið þar leitt með sóknarfráköstum og sniðskotum. Þá lék Bilic af meiri krafti í sókninni en áður. Þór hélt sínu leikplani, keyrðu upp hraðann, létu boltann ganga vel og þá var ákefðin í vörninni til fyrirmyndar. Smári Jónsson gat gefið Dedrick Basile góða hvíld í þessari stöðu, hélt vel um stjórntaumana og setti m.a. niður einn þrist. Allt rúllandi gott hjá Þór, 15 stigum yfir í hálfleik 36-41.

Seinni hálfleikur þróaðist svipað og sá fyrri, Valsmenn náðu nokkrum litlum áhlaupum inn á milli og freistuðu þess að minnka muninn en Þórsarar stoppuðu þá alltaf á réttum tíma og yfirleitt var það Dedrick sem hjó á hnútinn með góðum leik. Valsmenn voru mun ákveðnari í varnarleik sínum í þriðja leikhluta og ráku Þór til að byrja með oft í neyðarskotklukkuskot, en náðu ekki að fylgja því eftir á sóknarhelmingnum.

Í fjórða leikhluta var Þór kominn með skotrétt þegar 3 mínútur voru eftir og þrátt fyrir að Valsmenn hafi náð að minnka muninn undir 10 stig var sigur heimamanna aldrei í hættu. Lokatölur 98-89.

Af hverju vann Þór leikinn?

Það var mun meiri kraftur og hraði í Þórsliðinu en hjá Völsurum. Leikplanið var frá upphafi það að keyra upp hraðann og nýta frábæra sóknarhæfileika Dedrick Basile sem skildi Valsara eftir hvað eftir annað.

Hverjir stóðu upp úr?

Dedrick Basile og Ivan Alcolada stóðu upp úr í þessum leik. Annars virkaði liðsheild Þórsara ákaflega vel, menn voru með sín hlutverk á hreinu á báðum endum og krydduðu spilamennsku sína með mikill baráttu.

Hvað gekk illa?

Valsliðið var þungt í dag, þeir sakna gríðarlega Kristófers Acox og þá er Frank Booker frá vegna meiðsla. Þeir náðu af og til ágætum varnarleik en náðu að sama skapi ekki að nýta sér það á sóknarhelmingnum þegar mest á reyndi.

Hvað gerist næst?

Þórsarar fara austur til Egilsstaða á fimmtudaginn og leika gegn Hetti í gríðarlega mikilvægum leik á meðan Valsmenn taka á móti „Sláturfélagi Suðurlands,“ eða Þór Þorlákshöfn á sama tíma.

„Vildum láta Valsmenn vita strax að við værum komnir til að spila“

Bjarki Ármann Oddsson þjálfari Þórs var ánægður með leik sinna manna og sagði að uppleggið hefði verið að mæta Völsurum strax með miklum látum. „Við vildum láta þá vita að við værum komnir til að spila frá fyrstu mínútu. Við komum með ákveðna geðveiki inn í leikinn, spiluðum með hjartanu og þar liggur okkar styrkleiki,“ sagði Bjarki. Hann sagði gríðarlega mikilvægt að hafa getað hvílt Dedrick vel í 2. leikhluta. „Það er ótrúlega gaman að sjá Smára koma inn á og spila sitt hlutverk fullkomlega þó ekki séu þetta margar mínútur. Kolbeinn var með góða ógnun að utan og ég hef sagt það áður að það er mjög mikilvægt að fá gott framlag frá íslensku leikmönnunum okkar,“ sagði Bjarki. Hann sagði næsta leik við Hött vera gríðarlega mikilvægan en í þeim leik munu þeir tefla fram nýjum leikmanni sem kemur á sína fyrstu æfingu á morgun.

„Fannst Þórsararnir frábærir“

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Valsmanna byrjaði á því að hrósa Þórsurum fyrir þeirra leik: „Þeir voru frábærir og þegar við náðum að hægja eitthvað á Ivan og Dedrick stigu aðrir upp.“ Finnur sagði að frammistaða dagsins snúist ekki um hvað vantar í liðið heldur að frammistaða leikmanna hafi ekki verið nægilega góð. „Þegar við náðum að stoppa þá í vörninni, tóku þeir sóknarfráköst, eða við töpum boltanum á fáránlegan hátt auk þess sem sumar varnarróteringar voru ekki í lagi.“ Finnur sagði liðið ekkert vera á neitt góðum stað. „Jú við erum vissulega komnir með einhverja þrjá sigra en við erum langt frá því að vera nógu góðir og það er áhyggjuefni. Við eigum von á bandarískum leikmanni en stóra málið er að vinna með þann hóp sem er á gólfinu í dag,“ sagði Finnur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira