Fótbolti

Ronaldo til rannsóknar hjá ítölsku lögreglunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skíðaferð Georginu Rodriguez og Cristianos Ronaldo gæti dregið dilk á eftir sér.
Skíðaferð Georginu Rodriguez og Cristianos Ronaldo gæti dregið dilk á eftir sér. getty/Andreas Rentz

Cristiano Ronaldo, leikmaður Juventus, er til rannsóknar hjá ítölsku lögreglunni vegna meintra brota á sóttvarnareglum.

Ronaldo á að hafa brotið sóttvarnareglur þegar hann fór í skíðaferð í tilefni afmælis unnustu sinnar, Georginu Rodriguez.

Þau eiga að hafa ferðast milli héraðanna Piedmont og Valle d'Aosta. Bannað er að ferðast milli svokallaðra appelsínugulra svæða nema vegna vinnu og eða til að fara heim til sín.

Ronaldo og Rodriguez dvöldu eina nótt á skíðasvæðinu Courmayuer í tilefni af 27 ára afmæli hennar. Þau birtu myndir af sér á snjósleða á samfélagsmiðlum en þeim hefur nú verið eytt.

Ef Ronaldo og Rodriguez verða fundin sek um brot á sóttvarnareglum gætu þau átt yfir höfði sér sekt.

Ronaldo fékk kórónuveiruna síðasta haust. Heilbrigðisráðherra Ítalíu, Vincenzo Spadafora, gagnrýndi Ronaldo þá fyrir að ferðast frá Lissabon, þar sem hann var með portúgalska landsliðinu, og til Tórínó.

Spadafora sagði Ronaldo hrokaafullan en leikmaðurinn hafnaði sök í málinu.

Ronaldo og félagar í Juventus sækja Sampdoria heim í ítölsku úrvalsdeildinni á morgun. Juventus er í 5. sæti deildarinnar með 36 stig, sjö stigum á eftir toppliði AC Milan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×