Körfubolti

Meistararnir töpuðu fyrir einu slakasta liði deildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blake Griffin sækir á LeBron James í leik Detroit Pistons og Los Angeles Lakers.
Blake Griffin sækir á LeBron James í leik Detroit Pistons og Los Angeles Lakers. getty/Gregory Shamus

Meistarar Los Angeles Lakers töpuðu öðrum leiknum í röð þegar þeir biðu lægri hlut fyrir Detroit Pistons, 107-92, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Þetta var aðeins fimmti sigur Detroit í vetur. Blake Griffin var stigahæstur heimamanna með 23 stig.

LeBron James og Kyle Kuzma skoruðu 22 stig hvor fyrir Lakers sem lék án Anthonys Davis í nótt.

Betur gekk hjá hinu liðinu í Los Angeles, Clippers, sem sigraði Miami Heat á útivelli, 105-109.

Kawhi Leonard og Paul George voru fjarri góðu gamni hjá Clippers og þá vantaði líka mikið í lið Miami.

Nicolas Batum skoraði átján stig fyrir Clippers og Lou Williams sautján. Tyler Herro var stigahæstur í liði Miami með nítján stig.

Eftir þrjú töp í röð vann Phoenix Suns Golden State Warriors, 114-93. Sjö leikmenn Phoenix skoruðu tólf stig eða meira í leiknum. Mikal Bridgers var þeirra stigahæstur með tuttugu stig. Steph Curry skoraði 27 stig fyrir Golden State.

Þá vann Houston Rockets fjórða leikinn í röð þegar liðið bar sigurorð af Portland Trail Blazers, 104-101. Victor Oladipo skoraði 25 stig fyrir Houston og Christian Wood var með 22 stig og tólf fráköst. Damian Lillard skoraði þrjátíu stig fyrir Portland.

Úrslit næturinnar

  • Detroit 107-92 LA Lakers
  • Miami 105-109 LA Clippers
  • Phoenix 114-93 Golden State
  • Houston 104-101 Portland
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×