Erlent

Vell­auðugt par sótt til saka fyrir að svíkja út bólu­efni ætlað frum­byggjum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rodney og Ekaterina Baker hafa vakið mikla reiði í Kanada með athæfi sínu.
Rodney og Ekaterina Baker hafa vakið mikla reiði í Kanada með athæfi sínu. Facebook

Kanadískt par á yfir höfði sér fangelsisvist eftir að hafa beitt brögðum til að fá bólusetningu við kórónuveirunni. Parið, sem er hvítt og forríkt, fékk bóluefni sem ætlað var viðkvæmum hópi kanadískra frumbyggja.

Parið, Rodney og Ekaterina Baker, fóru með leiguflugi til Beaver Creek, hundrað manna smábæjar í Yukon í norðvesturhluta Kanada. Þar þóttust þau vera starfsmenn gistiheimilis á svæðinu og fengu skammt af bóluefni Moderna. 

Bóluefnið var sérstaklega ætlað íbúum á svæðinu, þar á meðal öldruðum meðlimum af ætt frumbyggja sem kennd er við White River. Allir íbúar svæðisins teljast í áhættuhópi; ýmist vegna takmarkaðs aðgengis að heilbrigðisþjónustu eða aldurs. 

Parið var sektað um rúma tvö þúsund Kanadadollara, eða um 230 þúsund íslenskar krónur fyrir uppátækið. Sektin þótti þó heldur væg refsing fyrir brotið þar sem parið er afar vel stætt. Rodney Baker var hálaunaður framkvæmdastjóri hjá spilavíti, þar til hann sagði af sér á sunnudag, og hafði þénað um fjóra milljarða íslenskra króna á hlutabréfaviðskiptum síðasta árið.

Yfirvöld í Yukon hafa nú stefnt parinu fyrir dóm en því er meðal annars gefið að sök að hafa brotið fjórtán daga sóttkví við komuna á svæðið. Parið á yfir höfði sér allt að sex mánaða fangelsisvist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×