Erlent

Framlengja harðar aðgerðir út febrúar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mette Frederiksen forsætisráðherra tilkynnti háframhaldandi veiruaðgerðir í dag.
Mette Frederiksen forsætisráðherra tilkynnti háframhaldandi veiruaðgerðir í dag. EPA

Dönsk stjórnvöld tilkynntu á blaðamannafundi síðdegis að sóttvarnareglur, sem verið hafa í gildi í janúar og þykja nokkuð íþyngjandi, muni áfram gilda til 28. febrúar.

Flestar búðir, auk hárgreiðslustofa og sambærilegrar starfsemi, verða því áfram lokaðar og samkomutakmarkanir miðast við fimm manns. Skólar verða einnig lokaðir eins og verið hefur undanfarnar vikur.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra, segir framlengingu á núgildandi reglugerð vera nauðsynlega. Næstu vikurnar ætti að nást skýrari mynd af stöðunni og hvort Dönum takist að halda breska afbrigði veirunnar í skefjum.

„Við höfum séð hversu hratt nýja afbrigðið getur sett hlutina úr skorðum. Þess vegna getum við ekki slakað á aðgerðunum. Jafnvel þegar við bólusetjum fleiri verðum við að stíga varlega til jarðar,“ sagði Frederiksen á blaðamannafundi í dag.

Þá fór Henrik Ullum yfirmaður Sóttvarnastofnunar Danmerkur (SSI) yfir hlutfall breska afbrigðisins meðal nýgreindra. Í byrjun desember hafi 0,2 prósent þeirra sem greindust með kórónuveiruna í Danmörku verið smitaðir af breska afbrigðinu. Í annarri viku janúarmánaðar hafi hlutfallið verið komið upp í 7,4 prósent og í vikunni eftir var hlutfallið 13,5 prósent.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×