Erlent

Sérfræðingar WHO geta hafið rannsókn sína í Wuhan

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Frá sjúkrahúsi í Wuhan í janúar í fyrra.
Frá sjúkrahúsi í Wuhan í janúar í fyrra. AP/Xiong Qi

Teymi sérfræðinga frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) hefur nú lokið einangrun eftir komuna til Kína.

Teymið getur því  í dag hafist handa við að rannsaka upptök kórónuveirufaraldursins en almennt er talið að hann hafi hafist í kínversku stórborginni Wuhan.

Vísindamennirnir munu taka viðtöl við fólk frá rannsóknastofum í borginni, heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk á matarmarkaði borgarinnar en talið er að veiran hafi fyrst smitast í mannfólk þar.

Rannsóknin hefur lengi staðið til og eftir margra mánaða samningaviðræður við kínversk stjórnvöld náðist loks lausn í málið og kom hópurinn, sem telur þrettán sérfræðinga, til Wuhan þann 14. janúar síðastliðinn.

Þá tók við fjórtán daga einangrun en tíminn var þó notaður til að ræða við kínverska vísindamenn í gegnum fjarfundabúnað, að sögn breska ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×