Deilurnar hafa svo gott sem fryst starf þingdeildarinnar í viku og vegna þeirra hafa Repúblikanar haldið stjórn sinni á þingnefndum.
Deilurnar snerust að mestu um þann aukna meirihluta sem þarf til að staðfesta mest öll frumvörp öldungadeildarinnar. Reglurnar segja til um að þörf sé á 60 atkvæðum af hundrað en meðlimir Demókrataflokksins hafa kallað eftir því að sú regla verði lögð til hliðar, eins og hefur áður verið gert. Á ensku kallast þessi regla „filibuster“.
McConnell hefur krafist þess að Schumer heiti því að leggja regluna um aukna meirihlutann ekki til hliðar. Þingsæti öldungadeildarinnar skiptast jafnt milli flokka, 50-50, og varaforseti Bandaríkjanna, Kamala Harris, á úrslitaatkvæðið.
Schumer hefur ítrekað sagt að hann muni ekki samþykkja kröfu McConnell. Demókratar hafa viljað byggja störf deildarinnar á samkomulagi sem gert var árið 2001, þegar þingið deildist síðast jafnt milli flokka. Samkvæmt því stýrði sá flokkur sem sem varaforsetinn tilheyrir dagskrá þingdeildarinnar.

Tveir Demókratar vilja halda reglunni
McConnell sagði í gærkvöldi að hann væri tilbúinn til að fara eftir því samkomulagi. Það var eftir að minnst tveir öldungadeildarþingmenn Demókrataflokksins sögðust alfarið andvígir því að fella niður regluna um aukna meirihlutann.
Joe Biden hefur heitið því að vinna með Repúblikönum og ítrekaði talskona hans það nýverið. Forsetinn er ekki hlynntur því að fella niður umrædda reglu en hefur sagt að honum gæti snúist hugur ef Repúblikanar verði of „óstýrilátir“.
Í frétt Washington Post segir að það gæti liði margir mánuðir þar til reglan um aukinn meirihluta muni leiða til frekari deilna. Fyrsta áhersluverk Bidens og Demókrata sé að koma mjög stórum neyðarpakka vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar í gegnum þingið og þegar séu þeir byrjaðir að leita að stuðningi Repúblikana.
Reynist það erfitt eru Demókratar þó tilbúnir til að beita sérstökum hliðarleiðum til að koma peningunum sem um ræðir út í hagkerfið án þess að fara í gegnum þingið. Þær reglur er þó eingöngu hægt að nota varðandi fjárveitingar. Ekki annars konar frumvörp sem Demókratar vonast til að koma í gegnum þingið.
Þau snúa meðal annars að réttindum borgara, veðurfarsbreytingum og breytingum á löggæslu í Bandaríkjunum.
Þrýstingur frá vinstrinu
Þingmennirnir sem lýstu sig andsnúna því að leggja umrædda reglu til hliðar eru þau Joe Manchin frá Vestur-Virginíu og Kyrsten Sinema frá Arisóna. Vinstri aðgerðahópar hafa þegar lýst því yfir að þeir ætli sér að beita þá þingmenn þrýstingi og krefjast þess að þeir skipti um skoðun.