Innlent

Ný afbrigði og bólusetningar: Full ástæða til að fara varlega

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sóttvarnalæknir og landlæknir segja mikilvægt að vera áfram á varðbergi.
Sóttvarnalæknir og landlæknir segja mikilvægt að vera áfram á varðbergi. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ekki þurfi nema smá óheppni til að smit berist inn í landið. Þess vegna, segir hann, er nauðsynlegt að viðhafa áfram öflugt eftirlit á landamærunum og huga að persónubundnum sóttvörnum.

Ástæðan er ekki síst ný afbrigði kórónuveirunnar, sem hafa náð mikilli útbreiðslu erlendis. Hið svokallaða breska afbrigði hefur nú greinst í yfir sextíu ríkjum og suðurafríska afbrigðið í tuttugu. Brasilíska afbrigðið hefur aðeins greinst innanlands og hjá einstaka ferðamanni.

Afbrigðin þrjú virðast meira smitandi og þá eru spurningar uppi um hvort þau séu ónæmari fyrir bóluefnum en greint var frá því í dag að bóluefni Moderna virðist veita vörn gegn breska afbrigðinu og því suðurafríska.

Sóttvarnalæknir hefur verið varkár í svörum inntur eftir mögulegum afléttingum aðgerða en hann segir það meðal annars helgast af þróuninni erlendis. Það þurfi að leggja allt kapp á að koma í veg fyrir að smit berist inn í landið og ekki síður að það dreifi sér í samfélaginu.

„Það er líka ástæða til að reyna að fara varlega núna þegar við erum að auka bólusetningar; við viljum ekki missa faraldurinn úr höndunum núna þegar við erum að reyna að bólusetja sem flesta,“ segir Þórólfur.

Undir þetta tók Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi dagsins.

„Aðgerðirnar á landamærunum miða vissulega að því að lágmarka áhættu á að smit, til dæmis með þessum afbrigðum, berist hingað til landsins en þær koma ekki algjörlega í veg fyrir það. Og því verðum við að halda vöku okkar á landamærunum og fylgja reglum í hvívetna en líka fylgja reglum vel hér innanlands.“


Tengdar fréttir

Einn greindist innan­lands

Einn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær. Sá sem greindist var í sóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×