Körfubolti

81 stigs leikur Kobe Bryant sýndur í heild sinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant var magnaður þetta janúarkvöld fyrir fimmtán árum síðan.
Kobe Bryant var magnaður þetta janúarkvöld fyrir fimmtán árum síðan. Getty/Harry How

Í dag 22. janúar eru liðin fimmtán ár síðan að Kobe Bryant skoraði 81 stig í einum og sama leiknum í NBA-deildinni í körfubolta.

Stöð 2 Sport ætlar að minnast þessa afreks Kobe heitins með því að sýna leikinn í heild sinni en Los Angeles Lakers og Toronto Raptors mættust 22. janúar 2006.

Kobe Bryant skoraði 81 stig á tæpum 42 spiluðum mínútum en hann hitti úr 28 af 46 skotum sínum (61%) þar af 7 af 13 fyrir utan þriggja stiga lúna. Kobe nýtti ennfremur 18 af 20 vítaskotum sínum.

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport en útsendingin hefst klukkan 21.45.

Þetta er enn það næstmesta sem einn leikmaður hefur skorað í einum leik í NBA-deildinni á eftir hundrað stiga leik Wilt Chamberlain. Í tilfelli Chamberlain þá var dælt inn á hann boltum í stórsigri en Lakers liðið þurfti virkilega á stigum Kobe Bryant til að vinna leikinn.

Lakers liðið var nefnilega fjórtán stigum undir í hálfleik og náði ekki forystunni fyrr en í lokaleikhlutanum. Kobe Bryant skoraði 55 af 81 stigi sínum í seinni hálfleiknum.

Kobe Bryant bætti með þessu stigamet Los Angeles Lakers um tíu stig en Elgin Baylor hafði skorað 71 stig í nóvember 1960 og met hans var því orðið 45 ára gamalt.

Kobe hafði skorað 51 stig aðeins þremur dögum fyrr og 37 stig í leiknum á undan. Hann náði því að skora 169 stig á aðeins rúmlega þremur sólarhringum.

Á þriðjudaginn, 26. janúar 2021, verður eitt ár liðið síðan að Kobe Bryant fórst í þyrluslysi ásamt dóttur inni og sjö öðrum.

Stöð 2 Sport 2 mun það kvöld sýna heimildarmynd frá NBA deildinni um feril Kobe Bryant sem hefur fengið nafnið „Kobe í áranna rás“ en strax á eftir verður sýndur lokaleikur Kobe Bryant á ferlinum þegar hann skoraði 60 stig á móti Utah Jazz 13. apríl 2016.

Í þættinum er farið yfir feril Kobe og rætt við samherja hans og þjálfara en hann verður sýndur klukkan 20.00. Sextíu stiga leikurinn verður sýndur frá klukkan 21.00.

Hér fyrir neðan má sjá sjónvarpsfrétt í Bandaríkjunum um 81 stigs leikinn hans Kobe Bryant.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×