Fótbolti

Þjálfari kvennaliðs Santos lést úr COVID-19

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Perez Padron var sagður hafa fylgt öllum sóttvörnum en það dugði ekki til.
Martin Perez Padron var sagður hafa fylgt öllum sóttvörnum en það dugði ekki til. Instagram/@clubsantosfemenil

Kórónuveiran hefur haft mikil áhrif á eitt liðið í kvennafótboltadeildinni í Mexíkó.

Martin Perez Padron, þjálfari kvennaliðs Santos Laguna, lést í gær eftir að hafa fengið kórónuveiruna COVID-19 í hópsmiti innan liðsins.

Auk Padron þá fengu tíu leikmenn liðsins kórónuveiruna. Þjálfarinn var 57 ára gamall þegar hann lést.

„Santos Laguna samhryggist Perez Padron fjölskyldunni og öllu Santista samfélaginu vegna fráfalls Martin Perez Padron, knattspyrnustjóra kvennaliðs okkar,“ sagði í tilkynningu félagsins.

„Martin Perez, var frábær manneskja og góður félagi. Hann fylgdi öllum smitvörnum og reglum en á endanum varð hann enn eitt fórnarlamb þessa faraldurs sem herjar ekki aðeins á landið okkar heldur allan heiminn. Við sameinumst í að biðja fyrir því að hann fái að hvíla í friði og að fjölskylda hans fái styrk til að komast í gegnum þetta,“ sagði í yfirlýsingu félagsins.

Perez Padron byrjaði að þjálfa árið 2003 og kom fyrst til Santos árið 2018 sem aðstoðarþjálfari. Hann tók við sem aðalþjálfari liðsins 2020 og stýrði liðinu alls í 25 leikjum áður en hann lést.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×