Rósa Björk segist telja þörf á frumvarpinu vegna þróunar mála erlendis.
„Við höfum séð ógnvænlega þróun eiga sér stað síðastliðin tvö ár í Evrópu, þar sem hatursglæpum hefur fjölgað á ógnarhraða. Byggðum á gyðingaandúð og hatursorðræðu í garð trúar- og minnihlutahópa,“ sagði Rósa Björk í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Hún segir þá ástæðu þess að hún, ásamt öðrum þingmönnum, lagði fram frumvarpið séu atburðirnir sem áttu sér stað í höfuðborg Bandaríkjanna þann 6. janúar.
„Þegar hægri öfgamenn ruddu sér leið inn í bandaríska þinghúsið, hvar margir þeirra voru með gyðingaandúðarmerki og boli með upphafningu á sér, merktir þessum áróðri,“ segir Rósa Björk.
Sammála um markmiðið en ekki aðferðina
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, tekur undir áhyggjur Rósu Bjarkar af vandamálinu sem gyðingaandúð er. Hann telur hins vegar að bann við afneitun Helfararinnar sé ekki lausnin.
„Vandamálið sem Rósa Björk talar um er mjög raunverulegt. Það er uppgangur nýfasisma í gangi og við eigum að taka það alvarlega og fara að horfast í augu við það. Það er eitt af mikilvægustu málum nútímans. Áhyggjur mínar þegar kemur að frumvarpi þessu, og sambærilegum lögum, er að það sé vatn á myllu nýfasistanna sjálfra,“ segir Helgi Hrafn. Hann óttist að lögin geti snúist í höndunum á þeim sem vilja berjast gegn uppgangi nýfasisma og nýnasisma.
Helgi telur að með setningu slíkra laga verði auðveldara fyrir nýfasista að selja málstað sinn og stunda nýliðun, og réttlæta málstað sinn, sem Helgi segir fáránlegan og ógeðslegan.
„Við erum alveg sammála um markmiðið og vissulega vandamálið. En það skiptir máli hvernig er barist gegn nýfasismanum og ég tel þetta einfaldlega vera mistök, að gera þetta með þessum hætti,“ segir Helgi Hrafn.