Erlent

Ó­jöfn dreifing bólu­efnis „sið­ferði­legt stór­slys“

Sylvía Hall skrifar
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Vísir/EPA

Það er ósanngjarnt að yngra og heilbrigðara fólk í ríkari þjóðum heimsins sé bólusett við kórónuveirunni áður en viðkvæmir hópar í fátækari löndum fá bólusetningu. Þetta segir Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem er afar gagnrýninn á það hvernig bóluefni hefur verið dreift.

Á árlegum stjórnarfundi stofnunarinnar sagði Ghebreyesus það vera óréttlátt að horfa upp á heilbrigt fólk fá bólusetningu á meðan meirihluti heimsbyggðarinnar hefði ekki aðgengi að bóluefni. Heimsbyggðin væri á barmi siðferðilegs stórslyss ef ekki yrði bætt úr.

Aðeins 25 skömmtum hefur verið dreift í fátækustu ríkjum heims á sama tíma og 39 milljónum hefur verið dreift í ríkari löndum. Allir þeir 25 skammtar sem um ræðir fóru til Gíneu til jafn margra einstaklinga, þar á meðal forsetans, og voru þeir bólusettir með rússneska bóluefninu Sputnik.

Faraldurinn verði lengri fyrir vikið 

Bandaríkin, Bretland, Indland, Kína og Rússland hafa nú þegar þróað bóluefni og hafa einnig önnur bóluefnið verið þróuð í alþjóðlegu samstarfi. Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins hafa næstum allar þjóðir sem hafa ráðist í bóluefnaþróun sett sína íbúa fremst í forgangsröðunina.

Ghebreyesus sagði þennan ójöfnuð „kosta líf og lífsviðurværi fólks í fátækustu löndum heimsins“ og leiða til þess að bóluefnaverð myndi hækka á sama tíma og ríkustu þjóðirnar myndu birgja sig upp af bóluefni.

„Á endanum mun þetta aðeins framlengja faraldurinn og þær hömlur sem þurfa til að halda honum í skefjum, sem og þjáningar fólks og efnahagslífsins.“

Hann kallar eftir því að þjóðir heimsins sýni fulla samstöðu með verkefni Covax um að koma bóluefnum til fátækustu þjóðanna.

„Mín áskorun til aðildarríkjanna er að tryggja að á alþjóðlegum degi heilbrigðismála þann 7. apríl verði bóluefni við kórónuveirunni komin í dreifingu í öllum löndum,“ sagði Ghebreyesus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×