Körfubolti

NBA dagsins: Háloftafuglinn Zion í stuði og Doncic fór fram úr Jordan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zion Williamson treður boltanum með tilþrifum í nótt.
Zion Williamson treður boltanum með tilþrifum í nótt. AP/Rich Pedroncelli

Zion Williamson og Luka Doncic buðu upp á flott tilþrif í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en útkoman í leikjum liða þeirra var ólík.

Skemmtikrafturinn Zion Williamson bauð upp á flott tilþrif þegar New Orleans Pelicans vann 128-123 sigur á Sacramento Kings í nótt á sama og fótboltalið borgarinnar var slegið út úr úrslitakeppni NFL-deildarinnar.

Zion Williamson skoraði 31 stig á 35 mínútum og hitti úr 13 af 15 skotum sínum í leik. Með þessum sigri enduðu Pelíkanarnir fimm leikja taphrinu og unnu sinn fyrsta leik síðan á móti Toronto Raptors 3. janúar síðastliðinn.

Það þurfti eitthvað sérstakt frá Zion í þessum leik því í hinu liðinu átti bakvörðurinn De'Aaron Fox magnaðan leik. Fox skoraði 43 stig og gaf 13 stoðsendingar að auki.

Stórleikur Luka Doncic dugði aftur á móti ekki fyrir Dallas Mavericks á móti Chicago Bulls.

Doncic bauð upp á magnaða þrennu því hann var með 36 stig, 16 fráköst og 15 stoðsendingar í leiknum. Með þessari þrennu þá komst hann upp fyrir Michael Jordan á þrennu listanum og það í leik á móti Bulls.

Þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gamall og bara á þriðja ári sínu í NBA-deildinni þá er Luka Doncic kominn með 29 þrennu á ferlinum eða eina fleiri en sjálfur Michael Jordan.

Dallas Mavericks tapaði reyndar öðrum leik sínum í röð en í liðið vantaði marga leikmenn vegna kórónuveiruvandamála. Þá meiddist líka Tim Hardaway Jr. fyrir leikinn og liðið saknaði hans mikið.

Hér fyrir neðam má sjá svipmyndir og viðtöl úr sigri Chicago Bulls á Dallas Mavericks og úr sigri New Orleans Pelicans og Sacramento Kings. Þá fylgja eins og vanalega flottustu tilþrifin úr leikjum NBA-deildarinnar í nótt.

Auðvitað var það boltatækni Luka Doncic sem tryggði honum bestu tilþrif næturinnar en Zion Williamson var númer tvö.

Klippa: NBA dagsins (frá 17. janúar 2021)
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×