Fyrirtækin sem um ræðir heita Blue Origin, sem er í eigu Jeff Bezos, og Virgin Orbit, í eigu Richard Branson.
Starfsmenn Blue Origin skutu geimfari á loft með New Shepard eldflaug sem lenti aftur á jörðu niðri að geimskotinu loknu. Um borð í geimfarinu var gínan Mannequin Skywalker en markmið fyrirtækisins er að geta skotið fólki og birgðum út í geim á ódýran máta með því að endurnýta eldflaugar.
Blue Origin vinnur einnig að því að þróa lendingarfar fyrir ætlaðar tunglferðir NASA á næstu árum.
New Shepard eldflaugar Blue Origin geta þó ekki farið langt út í geim. Allt að sex manns munu geta farið í einni ferð og varið um þremur til fjórum mínútum á braut um jörðu.

Skotið á fimmtudaginn var fjórtánda tilraunaflug New Shephard og vonast forsvarsmenn Blue Origin til þess að geta skotið fólki á loft í fyrsta sinn innan nokkurra mánaða.
Hér að neðan má sjá útsýnið hjá Mannesquin Skywalker á fimmtudaginn og geimskotið sjálft.
Stunning views from space today. #NewShepard pic.twitter.com/Q7lFPpieBs
— Blue Origin (@blueorigin) January 14, 2021
Starfsmenn Virgin Orbit skutu svo sinni fyrstu eldflaug og gervihnöttum á braut um jörðu í gær. Það var gert undan ströndum Kaliforníu.
Það geimskot fór þannig fram að flugvélin Cosmic Girl var notuð til að bera eldflaugina LauncherOne upp í háloftin. Eldflauginni var svo sleppt og tóku hreyflar hennar við og báru eldflaugina út í geim.
Sambærileg tilraun misheppnaðist í fyrra.
Með þessu fyrirkomulagi vonast forsvarsmenn Virgin Orbit til þess að geta sparað mikinn eldsneytiskostnað við geimskot.
Fyrirtækið hefur gefið út að tilraunaskotið feli í sér að nú verði hægt að byrja að skjóta gervihnöttum á loft fyrir viðskiptavini Virgin Orbit.
Today's sequence of events for #LaunchDemo2 went exactly to plan, from safe execution of our ground ops all the way through successful full duration burns on both engines. To say we're thrilled would be a massive understatement, but 240 characters couldn't do it justice anyway. pic.twitter.com/ZKpoi7hkGN
— Virgin Orbit (@Virgin_Orbit) January 18, 2021
Við þetta má svo bæta að einkafyrirtækið Rocket Lab hætti við að skjóta gervihnöttum á braut um jörðu frá Nýja Sjálandi um helgina og að einkafyrirtækið SpaceX mun skjóta gervihnöttum á braut um jörðu á morgun.
Bilun kom upp við tilraun NASA
Starfsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna gerðu fyrstu tilraunina með hreyfla eldflaugarinnar Space Launch System, eða SLS, í Mississippi á laugardaginn. Hreyflarnir fjórir voru settir í gang og áttu að vera í gangi í um átta mínútur. Þeir stoppuðu þó eftir 67 sekúndur.
Þá hafði komið upp bilun í einum hreyflinum.
SLS eldflaugin er mikilvæg í Artemis verkefninu, sem snýr að því að senda geimfara til tunglsins á nýjan leik á næstu árum og koma þar upp geimstöð. Þróun eldflaugarinnar hefur þó verið mun dýrari en til stóð og tafist verulega. Eldflaugin á að vera sú öflugasta sem hefur verið smíðuð.
Enn sem komið er hefur NASA veitt litlar upplýsingar um hvað kom upp á í tilrauninni um helgina. Vísindamenn stofnunarinnar, Boeing og Aerojet Rocketdyne munu fara yfir tilraunina og greina nákvæmlega hvað gerðist.
Tilraunin átti ef til vill að tryggja SLS í sessi en nú er framtíð eldflaugarinnar óljós. Ný ríkisstjórn tekur við völdum í Bandaríkjunum í vikunni og hingað til hefur framboð Joe Biden gefið lítið út varðandi áherslur sínar í geimferðum og rannsóknum.