Körfubolti

Einn nýliði í íslenska hópnum sem fer til Slóveníu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásta Júlía Grímsdóttir fær sitt fyrsta tækifæri með landsliðinu í síðustu leikjum þess í undankeppni EM.
Ásta Júlía Grímsdóttir fær sitt fyrsta tækifæri með landsliðinu í síðustu leikjum þess í undankeppni EM. vísir/daníel

Benedikt Guðmundsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, hefur valið hópinn fyrir síðustu leiki Íslands í undankeppni EM 2021.

Ísland mætir Grikklandi 4. febrúar og Slóveníu tveimur dögum síðar. Báðir leikirnir fara fram í svokallaðri „búbblu“ í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu, þar sem farið verður eftir ströngum sóttvarnareglum.

Einn nýliði er í tólf manna landsliðshópnum að þessu sinni, Valskonan Ásta Júlía Grímsdóttir. Anna Ingunn Svansdóttir, leikmaður Keflavíkur, er þrettándi leikmaðurinn í hópnum. Hún ferðast og æfir með íslenska liðinu og verður til taks ef gera þarf breytingar á hópnum.

Allir leikmennirnir í íslenska hópnum leika í Domino's deildinni fyrir utan Söru Rún Hinriksdóttir sem leikur með Leicester Riders á Englandi. Tvíburasystir hennar, Bríet Sif, er einnig í hópnum að þessu sinni.

Ísland hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum í undankeppninni og er á botni A-riðils.

Íslenski hópurinn

  • Ásta Júlía Grímsdóttir · Valur (Nýliði)
  • Bríet Sif Hinriksdóttir · Haukar (4)
  • Dagbjört Dögg Karlsdóttir · Valur (6)
  • Emelía Ósk Gunnarsdóttir · Keflavík (9)
  • Guðbjörg Sverrisdóttir · Valur (22)
  • Hallveig Jónsdóttir · Valur (21)
  • Hildur Björg Kjartansdóttir · Valur (32)
  • Isabella Ósk Sigurðardóttir · Breiðablik (6)
  • Lovísa Björt Henningsdóttir · Haukar (4)
  • Sara Rún Hinriksdóttir · Leicester Riders, England (21)
  • Sigrún Sjöfn Ámundadóttir · Skallagrímur (55)
  • Þóra Kristín Jónsdóttir · Haukar (19)

Þrettándi maður:

  • Anna Ingunn Svansdóttir · Keflavík (Nýliði)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×