Brak úr flugvélinni og líkamsleifar farþeganna, sem voru um borð í vélinni, hafa fundist. Þá hafa tvær töskur fundist, önnur innihélt eigur farþega en hin innihélt líkamshluta. Verið er að bera kennsl á það sem fannst í töskunum.
Flugvél flugfélagsins Sriwijaya Air, flug SJ182, hafði verið á lofti í um fjórar mínútur þegar hún hvarf af radar. Vélin er 26 ára gömul af tegundinni Boeing 737-500 og voru 62 um borð. Þar af voru tíu börn og sex áhafnarmeðlimir.
Fluginu hafði verið seinkað um hálftíma í gær vegna mikilla rigninga. Veðrið hægði á björgunaraðgerðum í gær en ættu nú að geta farið fram, þar sem veðrið hefur lægt. Fréttaritari breska ríkisútvarpsins í suðaustur Asíu segir að sjórinn þar sem flugvélin hrapaði sé nokkuð grunnur, og ættu björgunaraðgerðir því ekki að vera mjög flóknar.
Leitarmenn telja þó ólíklegt að nokkur hafi lifað slysið af.