Innlent

Íslendingar fá tvöfalt fleiri skammta af bóluefni Pfizer og BioNTech

Eiður Þór Árnason skrifar
Heilbrigðisstarfsmenn bólusettir á Suðurlandsbraut hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Heilbrigðisstarfsmenn bólusettir á Suðurlandsbraut hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Vísir/vilhelm

Gert er ráð fyrir því að Ísland geti fengið tvöfalt fleiri skammta af bóluefni Pfizer og BioNTech við Covid-19 í kjölfar nýs samkomulags Evrópusambandsins (ESB) við framleiðendurna. Þetta staðfestir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við fréttastofu.

Áður höfðu Íslendingar tryggt sér 250 þúsund skammta af bóluefninu sem duga fyrir um 125 þúsund manns. Með viðbótarsamningnum má því ætla að þeir geti orðið 500 þúsund talsins. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvenær viðbótarskammtar verða afhentir eða hvaða áhrif viðbótin hefur á núgildandi afhendingaráætlun.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, greindi frá því í morgun að sambandið hafi náð samkomulagi um kaup á 300 milljón bóluefnaskömmtum til viðbótar við þá 300 milljón skammta sem ESB hafði þegar tryggt sér.

Ísland fær þrjú önnur bóluefni

Íslendingar eru aðilar að samstarfi ESB um kaup á bóluefni við Covid-19 og hafa gert samninga við lyfjaframleiðendur á grundvelli þess. Framkvæmdastjórnin hefur áður sagt að Ísland muni hafa sama aðgang og aðildarríki ESB að þeim skömmtum sem sambandið hefur tryggt sér. Miðast það magn sem ríki fá úthlutað við höfðatölu. 

Um tíu þúsund skammtar af bóluefni Pfizer og BioNTech komu til landsins þann 28. desember síðastliðinn og er von á næsta skammti hingað til lands í kringum 20. janúar.

Íslensk stjórnvöld hafa einnig tryggt sér bóluefni frá þremur öðrum framleiðendum. Hefur verið samið um afhendingu bóluefnis Moderna fyrir 64 þúsund manns, Astra Zenica - Oxford fyrir 115 þúsund og Janssen - Johnson & Johnson fyrir alls 235 þúsund einstaklinga. Margt er þó óljóst með afhendingartíma bóluefnanna. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Kom á óvart að vera boðaður í bólusetningu

Á þriðja hundrað einstaklinga hafa verið bólusettir við Covid-19 á höfuðborgarsvæðinu sem tilheyra ekki hópi heilbrigðisstarfsmanna eða íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×