Í frétt BBC eru ástæðurnar fyrir töfunum meðal annars raktar til þess að uppfæra hafi þurft tölvukerfi svo fylgjast mætti með tímapöntunum og hvaða bóluefni væri gefið hverjum.
Veðjuðu á Oxford-bóluefnið
Líkt og önnnur ríki innan ESB fékk Holland sendingu af bóluefni Pfizers og BioNTech þann 27. desember síðastliðinn. Ekki tókst hins vegar að dreifa bóluefninu innanlands fyrr en síðustu daga þar sem heilbrigðisyfirvöld í Hollandi höfðu reiknað með að bóluefni Oxford/AstraZeneca yrði fyrst á markað.
Geyma þarf bóluefni Pfizer og BioNTech í -80 gráðu frosti og höfðu yfirvöld í Hollandi ekki gert nægjanlegar ráðstafanir til þess að geta tryggt hitastigið við dreifingu innan Hollands, að því er segir í frétt BBC.

Hefur ríkisstjórnin verið harðlega gagnrýnd vegna seinagangsins. Stjórnarandstaðan, sem gírar sig upp fyrir þingkosningar í mars, sagði aðgerðir ríkisstjórnarinnar, vera bæði kaotískar og undarlegar.
Hugo de Jonge, heilbrigðisráðherra Hollands, hefur tekið á sig mestu gagnrýnina vegna málsins. Hann hefur reynt að verja sig með því að benda á að ríki heimsins séu ekki í keppni varðandi bólusetningu.
Hann hefur þó viðurkennt að hann hefði getað brugðist hraðar við og að undirbúningurinn hefði mátt vera betri.
Bólusetningar hófust sem fyrr segir í dag. Þrjátíu þúsund heilbrigðisstarfsmenn verða bólusettir í fyrstu.