Erlent

Fjöldahandtökur í Hong Kong

Atli Ísleifsson skrifar
Lester Shum (til hægri) var einn þeirra sem var handtekinn í morgun.
Lester Shum (til hægri) var einn þeirra sem var handtekinn í morgun. Getty

Lögregla í Hong Kong handtók í morgun rúmlega fimmtíu aðgerðasinna sem hafa barist gegn yfirvöldum þar í landi og talað fyrir lýðræðisumbótum. Er um að ræða eina umfangsmestu aðgerð lögreglu í Hong Kong síðan ný öryggislög, sem veitir Kínastjórn aukin völd á svæðinu, tóku gildi. Lögregla segir von á frekari handtökum.

Fjölmiðillinn RTHK segir frá því að í hópi hinna handteknu eru þekktir einstaklingar úr framvarðasveit mótmælenda, þeirra á meðal James To, Lam Cheuk-Ting og Lester Shum.

Reuters hefur eftir talsmönnum mótmælenda að þeir hafi verið handteknir fyrir að hafa tekið þátt í óformlegum forkosningum þar sem verið var að vilja fulltrúa stjórnarandstæðinga til að leiða baráttuna í þeim kosningum sem áttu að fara fram í Hong Kong í haust. Þeim kosningum var frestað vegna heimsfaraldursins.

Alls tóku um þúsund lögreglumenn þátt í aðgerðunum sem hófust snemma í morgun. Sakar lögregla mótmælendurna um að hafa gert tilraun til að steypa stjórnvöldum í héraðinu.


Tengdar fréttir

Jos­hua Wong dæmdur í 13,5 mánaða fangelsi

Dómstóll í Hong Kong hefur dæmt hinn 24 ára Joshua Wong, einn helsta leiðtoga mótmælenda þar í landi, í þrettán og hálfs mánaða fangelsi fyrir þátt sinn í ólöglegum mótmælum sem beindust gegn stjórnvöldum á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×