Lífið

Daði Freyr óskar eftir hjálp við gerð nýja Euro­vision-lagsins

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Daði Freyr óskar eftir hjálp almennings við að setja saman kórkafla í Eurovision-lagi sínu.
Daði Freyr óskar eftir hjálp almennings við að setja saman kórkafla í Eurovision-lagi sínu. Daði Freyr/Twitter

Daði Freyr Pétursson, tónlistarmaður og meðlimur í hljómsveitinni Gagnamagninu, hefur óskað eftir aðstoð almennings við gerð lagsins sem verður framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, á þessu ári.

„Hæ, ég heiti Daði Freyr. Ég tek þátt í Eurovision 2021 ásamt Gagnamagninu. Ég er alveg að verða búinn með lagið en ég þarf ykkar hjálp. Ég vil hafa stóran kórkafla í laginu, en ég hef ekki aðgang að kór akkúrat núna. Þess vegna þarf ég þig í kórinn,“ segir Daði í myndbandi sem hann birti á Twitter síðu sinni.

Með myndbandinu er að finna slóð á leiðbeiningar um sönginn sem óskað er eftir, en alls vantar Daða sjö mismunandi raddir í kórinn. Þá biður hann áhugasama um að senda upptöku af sér að syngja eina rödd eða fleiri á netfangið gagnamagnidchoir@gmail.com, fyrir 11. janúar næstkomandi.

Í myndbandinu er svo að finna nánari leiðbeiningar um hvernig best er að skila upptökum til Daða, en viðbúið er að honum berist margar upptökur frá aðdáendum, sem marga hverja þyrstir eflaust í að vera hluti af Eurovision-lagi Daða og Gagnamagnsins.

Eurovision 2021 fer fram í Rotterdam í Hollandi, þar sem Holland bar sigur úr býtum í keppninni árið 2019. Engin eiginleg Eurovision keppni fór fram árið 2020, en sökudólgurinn í þeim efnum, líkt og svo mörgu öðru, er kórónuveirufaraldurinn sem geisað hefur um heiminn síðan snemma á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.