Fótbolti

Spánverjar mega æfa á mánudag og keppni gæti hafist snemma í júní

Sindri Sverrisson skrifar
Það styttist vonandi í að Lionel Messi og aðrir geti hafið æfingar að nýju.
Það styttist vonandi í að Lionel Messi og aðrir geti hafið æfingar að nýju. VÍSIR/GETTY

Spænsk stjórnvöld hafa tilkynnt að afreksíþróttafólk í landinu geti hafið einstaklingsæfingar 4. maí. Slakað verður á skilyrðum í nokkrum skrefum og standa vonir til að hægt verði að spila fótboltaleiki snemma í júní.

Keppni í spænsku 1. deildinni í fótbolta var stöðvuð um miðjan mars vegna kórónuveirufaraldursins. Þá var 27 umferðum af 38 lokið. Samkvæmt AS er stefnt að því að þráðurinn verði tekinn upp að nýju 5. eða 12. júní.

Leikmenn mega mæta á æfingasvæði síns félags frá og með 4. maí og æfa með bolta úti á velli, en þó ekki í hópum. Þann 18. maí á að leyfa allt að sex manna hópum að æfa saman, og stækka hópana í átta manns viku síðar. Ekki mega fleiri en tíu manns, að meðtöldum þjálfurum, vera á sama velli á sama tíma.

Þann 1. júní er stefnt að því að venjulegar liðsæfingar á Spáni geti hafist að nýju. Samkvæmt AS er ætlast til þess að leikmenn haldi sig einangruðum frá öðrum en liðsfélögum sínum, með það í huga að hægt verði að spila fótbolta að nýju og klára tímabilið, en leikmenn hafa til þessa hafnað þeirri hugmynd.

Frakkar hafa ákveðið að aflýsa sínu tímabili en Ítalir horfa til sams konar áætlunar og Spánverjar nú. Engin ákvörðun hefur verið tekin varðandi ensku úrvalsdeildina en vonir standa til að hægt verði að spila í júní. Keppni í Þýskalandi hefst hins vegar að nýju 9. maí ef að þýsk stjórnvöld gefa grænt ljós. Hvergi stendur til að áhorfendur verði á leikjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×