Innlent

Hvetja almenning til að taka þátt í rannsókn um líðan þjóðarinnar á tímum Covid-19

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Alma D. Möller, landlæknir, á upplýsingafundinum í dag.
Alma D. Möller, landlæknir, á upplýsingafundinum í dag. lögreglan

Alma D. Möller, landlæknir, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hvetja almenning til þess að taka þátt í nýrri rannsókn sem hleypt var af stokkunum í dag og ber yfirskriftina Líðan þjóðar á tímum Covid-19.

Landlæknir vakti athygli á rannsókninni á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis vegna kórónuveirunnar í dag.

Að rannsókninni standa vísindamenn við Háskóla Íslands í samstarfi við embætti landlæknis og sóttvarnalæknis og er öllum landsmönnum eldri en 18 ára boðið að taka þátt. Þátttakan er rafræn í gegnum vefsíðuna lidadicovid.is.

„Markmið þessarar rannsóknar er auðvitað að afla sem mestrar þekkingar á áhrifum faraldursins á heilsu og líðan, til þess meðal annars að geta brugðist við slíkum samfélagslegum áföllum bæði í nútíð og framtíð. Ætlunin er að skoða hvernig faraldurinn hefur haft áhrif á streitu, sálræna streitu og fleiri þætti en líka hvað hefur stutt við góða líðan,“ sagði Alma meðal annars um rannsóknina á upplýsingafundinum í dag.

Hún sagði að þau sóttvarnalæknir telji mikilvægt að svona rannsókn sé gerð.

„Og við viljum hvetja til þátttöku og það má lesa nánar um þessa rannsókn á heimasíðu okkar, landlaeknir.is, og síðan á heimasíðu rannsóknarinnar, lidanicovid.is,“ sagði landlæknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×