Körfubolti

Fannar um bikarúrslitin 1999: Það komu seríur af alls konar rugli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leiknum fræga í Höllinni 1999.
Úr leiknum fræga í Höllinni 1999. vísir/s2s

Hinn margfaldi Íslandsmeistari í körfubolta Fannar Ólafsson segir að mestu vonbrigðin á sínum körfuboltaferli hafi verið tapið með Keflavík í bikarúrslitaleiknum gegn Njarðvík árið 1999.

Fannar var gestur hjá Rikka G í Sportinu í kvöld sem var sýnt í gærkvöldi en þar gerði Fannar upp sinn magnaða feril. Hann á meðal annars fimm Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla.

Fyrsti bikarmeistaratitillinn kom þó ekki fyrr en 2004 en honum mistókst að vinna bikarinn árið 1999 er Fannar og félagar í Keflavík töpuðu fyrir grönnunum í Njarðvík. Þetta eru mestu vonbrigðin sagði Fannar, sér í lagi hvernig Keflvíkingar glutruðu þessu niður.

„Við leyfðum þessum leik að fara frá okkur. Við vorum átta eða níu stigum yfir þegar 30 sekúndur voru eftir. Þá koma seríur af alls konar rugli þar sem menn fara út fyrir og að tapa leiknum sem var unninn,“ sagði Fannar og hélt áfram:

„Þetta var fyrsti bikarúrslitaleikurinn minn. Þetta var rosa lærdómur í því hvernig þú stýrir leiknum þegar þú ert kominn í þessa aðstöðu til að geta stjórnað því. Þú ert með Fal, Bigga, Gauja, Hjört Harðar, Gunna Einars. Njarðvík tók þennan leik og vann hann. Þeir hættu ekki en við hættum svo þetta eru mestu vonbrigðin.“

Klippa: Sportið í kvöld - Fannar um bikarúrslitaleikinn 1999

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×