Erlent

Ischgl losnar undan sótt­kví fyrr en til stóð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svæðisyfirvöld í Týról hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa brugðist seint og illa við kórónuveirufaraldrinum í Ischgl.
Svæðisyfirvöld í Týról hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa brugðist seint og illa við kórónuveirufaraldrinum í Ischgl. EPA

Yfirvöld í Austurríki hafa ákveðið að sóttkví verði aflétt af þremur af vinsælustu skíðasvæðum landsins á fimmtudag, þremur dögum fyrr en til stóð.

Á meðal svæðanna sem losna undan sóttkvínni er skíðabærinn Ischgl, upphafsstaður kórónuveiruhópsýkinga víðsvegar um Evrópu - þar á meðal á Íslandi.

Svæðisyfirvöld í Týról hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa brugðist seint og illa við kórónuveirufaraldrinum í Ischgl, sem fann sér farveg meðal skíðamanna - sem síðan fóru smitaðir heim.

Byrjað var að slaka á kórónuveiruaðgerðum á landsvísu í Austurríki í síðustu viku - en vegna þess hversu margir greindust enn með veiruna á skíðasvæðunum þremur var ákveðið að framlengja sóttkví þar til 26. apríl. Í gær var hins vegar tilkynnt að faraldurinn væri í rénun og því væri ekkert því til fyrirstöðu að opna svæðin á ný.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilgreindi Ischgl sem sérstakt áhættusvæði vegna kórónuveirunnar í byrjun mars eftir að nokkur fjöldi Íslendinga sem þar höfðu dvalið greindist með veiruna.

Böndin hafa einkum beinst að tilteknum bar á svæðinu - og tiltekinni barflautu, sem gestir létu ganga á milli sín. Yfirvöld í Týról aðhöfðust ekkert fyrst um sinn, þrátt fyrir ákvörðun og viðvaranir Þórólfs.


Tengdar fréttir

Djammstaðurinn Ischgl sem sýkti hálfa Evrópu

Þrátt fyrir að viðvörunarbjöllur hafi hljómað víða um Evrópu og austurríska skíðasvæðið Ischgl verið skilgreint sem sérstakt áhættusvæði af heilbrigðisyfirvöldum nokkurra landa, hélt partýið áfram dag eftir dag.

Rannsaka hvort „flautubarinn“ hafi falið tilfelli

Yfirvöld í Austurríki rannsaka nú hvort að eigendur vinsæls bars í skíðabænum Ischgl hafi haldið kórónuveirusmiti starfsmanns þar leyndu. Fjöldi Íslendinga er á meðal hundruð manna sem hafa greinst með veiruna og rakið hefur verið til bæjarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×