Erlent

Norðurkóreskur læknir segir stjórnvöld fela faraldurinn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Stjórnvöld í Norður-Kóreu eru sögð reyna að fela kórónuveirufaraldurinn þar í landi. Enn sem komið er hefur ekki verið greint frá því að neinn hafi smitast.

Choi Jung-hun starfar nú sem rannsakandi við Kóreu-háskóla í suðurkóresku höfuðborginni Seúl. En áður en hann kom þangað var hann læknir í heimalandi sínu, Norður-Kóreu. Til dæmis á meðan SARS-faraldurinn geisaði, en sá sjúkdómur var af völdum afbrigðis kórónuveiru, rétt eins og COVID-19.

Hann segir að smitsóttir séu afar tíðar í Norður-Kóreu en að einræðisstjórn Kim-fjölskyldunnar reyni alltaf að fela allt slíkt.

„Ár eftir ár, og allan ársins hring, koma upp sóttir en Norður-Kórea segir aldrei frá því. Kim Jong-il og Kim Jong-un gefa skipanir um að greina ekki frá neinum smitsjúkdómum. Norður-Kórea viðurkennir ekkert slíkt.“

Þá segir hann að norðurkóreska heilbrigðiskerfið sé engan veginn undirbúið fyrir kórónuveirufaraldurinn. Langt því frá.

„Við getum borið þetta saman við byssur og kúlur. Sóttvarnir Norður-Kóreu eru eins og gömul skammbyssa. Hún virkar ekki af því viðhaldið er ekkert og það eru engar kúlur. Þannig er norðurkóreska heilbrigðiskerfið í hnotskurn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×